Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Page 14
Þ o r va l d u r G y l fa s o n
14 TMM 2014 · 4
flytja stóryrtar ræður um nauðsyn þess að grafa jarðgöng gegnum fjöllin
umhverfis þorpið Neðrahundagerði. Og allrasíst vekur það virðingu fyrir
starfi stjórnmálamanna að daginn út og inn leggja fréttamiðlar höfuðáherslu
á þá staðreynd að á þessum vinnustað séu menn ósammála um alla skapaða
hluti og vinni – ef það er þá vinna – við að þrasa um þá frá morgni til kvölds.
Það vill gleymast að mjög stór hluti þeirra laga sem kemur frá Alþingi eru
þrátt fyrir allt samþykkt ýmist í einu hljóði eða án mótatkvæða.
Þorvaldur: Þá fyrst er nú kannski ástæða til að grípa um veskið sitt.
Þráinn: Það er vissulega alveg rétt að almenningur á alltaf að vera var
um sig. Það er hin hliðin á skoðanakönnunum um „traust“. Auðvitað á
fólk aldrei að „treysta“ stjórnmálamönnum og allrasíst stjórnmálaflokkum
heldur eiga störf þeirra að vera undir stöðugu eftirliti.
Hin pólitíska umræða snýst ekki lengur um grundvallaratriði eins og
mat handa öllum, jafnrétti fyrir lögum, menntun handa öllum; og réttur
fátækra til að njóta læknisaðstoðar og lyfja hefur verið viðurkenndur – þótt
ríkisstjórnarflokkarnir núna vilji hverfa aftur til fortíðar á því sviði eins og
fleirum.
Hin pólitíska umræða snýst mestan part um óendanlega röð af smá
atriðum sem eru viðbætur, breytingar eða meintar lagfæringar á allri þeirri
lagaflækju sem umlýkur nútímaþjóðfélag og enginn, segi og skrifa ENGINN
hefur fullkomna yfirsýn yfir.
Áhorfandi sem tekur sér sæti á þingpöllum í dag heyrir ekki innblásnar
ræður um þau gildi sem skuli vera hornsteinar þjóðfélagsins heldur heyrir
hann þras um „hjól atvinnulífsins“, „strandveiðiheimildir“, „skólabyggingu
á Útnesi“, „nauðsyn þess að fækka svonefndum háskólum“ og alskonar hluti
sem ekki eru beinlínis fallnir til að blása eldmóði í hvert einasta brjóst.
Annars veit ég ekki um svona mælingar á tilfinningum fólks eða hug
lægum atriðum, eins og þessar kannanir sem þú vísar til. Hvað er traust?
Hvað er það nákvæmlega sem verið er að mæla? Hverju treystir fólk í sam
bandi við RÚV sem þrátt fyrir mikla gagnrýni skorar yfirleitt hátt í slíkum
mælingum? Ég held að fólk treysti því að fréttirnar byrji klukkan á slaginu
sjö og að fastir liðir verði eins og venjulega. Ég held að fólk treysti löggunni
til að koma tiltölulega fljótlega eftir að óskað hefur verið eftir hennar nær
veru með því að hringja í 112. Hverju á maður að treysta í sambandi við
þingið, nema því að þar heldur áfram hið eilífa þras um allt milli himins og
jarðar meðan venjulegt fólk þarf að vinna til að hafa í sig og á með öðru en
endalausum kjaftagangi. Ég á auðvitað við að „traust“ sem er fremur óljóst
hugtak verður ekki vegið og metið nema sá sem spurður er um traust viti
nákvæmlega um hvað verið sé að spyrja.
Það sem mér finnst merkilegast við mælingar á virðingu þingsins er að
almenningur virðist hafa ríka tilhneigingu til að afneita ábyrgð sinni á
hinum kjörnu fulltrúum. Það vill gleymast að enginn situr á Alþingi án þess
að hafa nokkur þúsund atkvæði á bakvið sig. Það vill gleymast að um Alþingi