Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Page 21
Tv ö fa l t l í f
TMM 2014 · 4 21
mínu var ég sannfærður um að það væri mikil framför frá núgildandi
stjórnarskrá, jafnvel án þess að hróflað væri við ýmsum hlutum sem ég taldi
að þyrftu að lagfæringum að halda. Ef ég hefði ekki haft þá sannfæringu
hefði ég ekki lofað mínum stuðningi.
Þú spyrð hvort ég haldi að lýðræðinu stafi ógn af Alþingi. Ég held að
margvíslegar hættur steðji að lýðræðinu hér á landi. Það er mín skoðun
að stærsta ógnin við lýðræðið, stærsta ógnin við að löggjafarvaldið sé í
höndum kjörinna fulltrúa almennings sé það mikla peningavald sem á
Íslandi er samankomið í tiltölulega fárra manna höndum og á sér ekki
lýðræðislegar forsendur heldur viðskiptalegar. Ég er að tala um það vald
sem auður og fé skapar. Auðvaldið er enn þann dag í dag eins og á dögum
frönsku stjórnarbyltingarinnar helsti andstæðingur og ógn við lýðræðið. Á
þeim rúmu tveimur öldum sem liðnar eru síðan einhvers konar prótótýpa
af nútímalýðræði leit fyrst dagsins ljós hefur náðst ótrygg málamiðlun milli
lýðræðis, þess valds sem er í höndum lýðsins, og auðvaldsins, í þá veru að
auðvaldið skuli beygja sig undir ákveðnar leikreglur sem settar eru með
lýðræðislegum hætti. Þessi málamiðlun er ótrygg. Kannski er þetta bara
stundarfriður. Hver er kominn til með að segja að lýðræðið haldi stöðugt og
sífellt áfram að þróast með jákvæðum hætti í rétta átt? Það getur komið bak
slag í þessa þróun. Stöðugar lýðræðislegar framfarir eru ekki gefinn hlutur
í veröld þar sem mikill minnihluti íbúa heimsins hefur fengið að kynnast
lýðræði.
Það eru fleiri en ég sem hafa áhyggjur af því að lýðræðinu hafi síður en
svo tekist að temja auðræðið. Í Bandaríkjunum vöggu lýðræðisins er svo illa
komið fyrir lýðræðinu að gömlum og góðum, íhaldssömum repúblíkana
eins og Dwight sáluga Eisenhower mundi blöskra fullkomlega ef hann sæi
út á hvaða braut hans gamli flokkur er nú kominn og gott ef hann snýst ekki
eins og skopparakringla í gröf sinni. Maður á að óttast og tortryggja valdið
og alla handhafa þess hverju sinni, og það er fyllsta ástæða til þess að halda
vöku sinni og standa vörð um lýðræðið sem er dýrmætasta eign okkar þótt
við sýnum því takmarkaða ræktarsemi eins og kosningaþátttaka ber vott
um. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Á Íslandi eru fjölmiðlar svo gott sem allir í höndum auðugra aðila og
stórveldi eins og LÍÚ hefur beinlínis yfirtekið gamalt og stundum virðulegt
íhaldsblað og gert að sínu áróðursriti með sinn leigupenna við stjórn. Auð
vitað steðja hættur að lýðræðinu okkar úr mörgum áttum. Auðræðið á sína
fulltrúa á Alþingi og það gefst ekkert garantí fyrir því að Alþingi Íslendinga
sem vel að merkja hefur ekki talið lýðræði í okkar skilningi meðal sinna
hornsteina nema kannski tvær aldir af þúsund ára starfstíma sínum verði
lýðræðisleg samkunda til eilífðar. Með þessu er ég ekki að segja að lýðræðinu
stafi hætta af Alþingi heldur skyldum við frekar hafa það í huga að Alþingi
og lýðræðinu stafar hætta af auðræðinu.