Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Blaðsíða 36
36 TMM 2014 · 4
Jóhanna Sigurðardóttir
Sambland af sælu og kvöl
Ávarp á 100 ára afmæli Verkakvennafélagsins
Framsóknar 10. október 2014
Ég vil byrja á því að þakka fyrir það tækifæri sem ég hef fengið hér til
að minnast ömmu minnar, Jóhönnu Egilsdóttur, nú á 100 ára afmæli
Verkakvennafélagsins Framsóknar. Það er mér einkar kært og ánægjulegt,
enda var amma Jóhanna alltaf stolt mitt og fyrirmynd.
Ég nefni erindi þetta „Sambland af sælu og kvöl“ en það er heiti lokakaflans
í bók um ömmu mína, „99 ár“, sem skráð er af Gylfa Gröndal.
Ég held að það sé ekkert ofsagt að ömmu minni hafi þótt ákaflega vænt
um verkakvennafélagið sitt – þar sem hún sat í stjórn í 39 ár, þar af 27 ár
samfleytt sem formaður.
Fyrir 70 árum, þegar verkakvennafélagið varð 30 ára, ritaði amma grein í
afmælisrit félagsins og ræddi um hina hörðu og lífsnauðsynlegu baráttu fyrir
bættum kjörum verkakvenna þegar félagið var stofnað. Þá baráttu sagði hún
hafa mætt vilja og skilningsleysi atvinnurekenda og jafnvel verkakvennanna
sjálfra sem óttuðust hótanir atvinnurekenda.
Amma sagði atvinnurekendur hafa, án alls bróðurkærleika, notað sér
miskunnarlaust hina röngu „trú“ um getuleysi og hæfnisleysi kvenna til
líkamlegra og andlegra starfa. Og í afmælisritinu lýsir hún því full af stolti
hvernig allt hafi gjörbreyst á þessum þrjátíu árum frá stofnun félagsins.
Ég sé hana fyrir mér, fremur lágvaxna en ábúðarfulla, segja eftirfarandi á
þessum afmælisdegi:
„Svo gjörbreyttur er þessi hugsunarháttur nú – sem betur fer – að varla
kemur fyrir að nokkur atvinnurekandi komi fram við verkakonur með hót
anir eða blekkingar, hvað þá að konur skilji ekki nauðsyn samtaka sinna.“
En sannarlega náðist þessi árangur, sem amma lýsti fyrir sjötíu árum, ekki
átakalaust.
Amma sagði mér margar sögur frá þessum átökum og sumra þeirra er
getið í bókinni „99 ár“ sem ég nefndi fyrr.
Mótandi bernskuminning
Nú í nóvember eru 133 ár frá því að Jóhanna Egilsdóttir fæddist.
Margar frásagnir hennar um strit og baráttu verkakvenna á fyrstu