Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Síða 47
G ö n g u f e r ð i r í h e i m a b y g g ð
TMM 2014 · 4 47
08.11.13
Dökkur skýjabakki hékk á suðvesturhimni þegar ég gekk suður Jörfaveginn.
Loftið var kalt en að öðru leyti var dagurinn mildur og þögull. Nóvember
litir, gulbrún sina í móanum, tjörnin föl og málmkenndur blær á vatninu,
frosið að hluta til. Fjöllin voru hvít með dimmgráu klettamynstri, Esjan
blágrá.
Hinum megin við Norðurnesveg gekk kona í svartri dúnúlpu. Við enda
tjarnarinnar mætti ég hjónum, hann í appelsínugulri úlpu og hún í dökkri,
bæði með hetturnar dregnar yfir höfuðið. Ég sá ekki að ég kannaðist við þau
fyrr en ég mætti þeim og bauð góðan daginn. „Blessuð,“ sagði hann, hún
bauð góðan daginn á móti.
Göngustígurinn var frosinn, allt um kring beið jörðin tilbúin eftir að hvít
ábreiða kæmi svífandi af himnum ofan. Við endann á götunni minni tók ég
í fyrsta skipti eftir því hvað blái liturinn á húsinu út við sjóinn nýtur sín sér
staklega vel í þessari nóvemberbirtu. Hinum megin götunnar var blár bíll í
næstum því sama lit, númerslaus.
Þegar ég kom gangandi í hlaðið heima sá ég tvö barnsandlit í glugga á efri
hæð. Ég veifaði.
23.1.14.
Gekk út Jörfaveginn eins og venjulega. Sólin var komin niður fyrir efstu
hluta ljósastauranna en þó var ekki sólsetur í birtunni. Í móanum glampaði
á einstök strá, lýsandi rákir á brúngulri sinu í skugga í bakgrunninum. Þegar
ég beygði til austurs út Norðurnesveginn losnaði ég við sólina úr augunum
og allt í kring öðluðust móarnir lit og dýpt. Esjan var hvít niður í rætur og
böðuð sólskini. Sólargeislarnir drógu fram hamrana í Bláfjöllunum og lýstu
upp Búrfellið og Lönguhlíðina. Himinninn fyrir ofan var heiður, ljósblár,
hvítleitur, en út við sjóndeildarhring voru skýjabakkar og mistur.
Ég horfði út yfir móana til austurs, kom auga á dumbrautt farartæki eða
tól sem ég kunni ekki skil á. Dráttarvél eða heyvinnuvél. Liturinn minnti
mig á sveitahús á NorðurÍtalíu í kringum Feneyjar, þessi sérstaki ryðrauði,
dumbrauði, brúnrauði litur, djúpur og hlýr, umkringdur gulri sinu eins og
gulum kornökrum. Dagurinn birtist fyrirvaralaust: þetta var þá ljómandi
dagur.
Ég hélt áfram mína leið, bílhljóð og flugvélarhljóð runnu saman í eitt.
Í suðri birtust geysistórir tankar álversins í Straumsvík, röndóttir, baðaðir
mistri. Útsýnið suður á bóginn var eins og landslag á ítölsku málverki
þar sem hver hæðin á fætur annarri hverfur í mistur. Forljótt, risavaxið
álverið reis upp úr rómantískri dulúðinni, í bakgrunni reis fjallgarðurinn
á Reykjanesinu og þar fyrir ofan svifu skýjabólstrar með gylltum röndum.
Meira að segja malbikið glampaði, það sló gylltum bjarma á göngustíginn
við hringtorgið.
Þegar ég kom yfir hæðina og það hallaði undan fæti á ný horfði ég yfir