Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Side 48
R a g n a S i g u r ð a r d ó t t i r
48 TMM 2014 · 4
lágreista byggðina á nesinu, eitt hús stóð upp úr, hvítt með rauðu þaki.
Handan við flóann hafði birtan breyst og Akrafjallið sveif ljósgullið í móðu,
Skarðsheiðin var horfin í þoku og skuggi fikraði sig eftir Esjunni til austurs,
snjórinn í hlíðunum hafði tekið á sig gylltan blæ.
Nú var farið að frjósa, ég steig út af göngustígnum til að forðast hálkuna
og gekk á grasinu, við hvert spor heyrðist skvamp í bleytu. Við hesthúsin
stóðu fimm menn í hnapp, fjórir svartklæddir, einn í ljósum jakka. Þeir voru
ábúðarmikilir, tveir með pappíra undir handleggnum, einn talaði í síma. Ég
lagði við hlustir þegar ég gekk fram hjá handan götunnar. Þeir voru að tala
um rotþrær. Það kom mér ekki á óvart. Meðfram stígnum voru djúp hófaför
í gulri sinunni, full af vatni.
13.2.14.
Gekk út Jörfaveginn, stillt, skýjað, við frostmark. Litir dagsins voru gulir
og gráir. Í móanum á hægri hönd var vatnið í skurðinum frosið, him
inninn speglaðist í ísnum og gerði hann skýjaðan, mjólkurlitan, grábláan,
brúnleitan. Tólf gæsir bitu gras og tvær þeirra álpuðust yfir göngustíginn í
átt að veginum en flugu gargandi upp þegar ég nálgast og sneru aftur inn í
móann til hinna.
Ég beygði til hægri þar sem göngustíginn nemur við Norðurnesveginn,
stuttur hringur í dag. Við endann á tjörninni hafði einhver kastað ónýtu
kústskafti á göngustíginn, það var hvítt með svörtum endum. Beyglað og
dældað.
Í grasinu við göngustíginn hafði vatn frosið í dældum, eins og bráðnu gleri
hefði verið hellt hér og hvar, sem nú hafði harðnað og varðveitti framvegis
hvert strá að eilífu. Þetta var glerdagur, stilltur og glær.
Tjörnin var líka frosin og ísinn sléttur, ljós að sjá, tíðindalítill, svanirnir
voru hvergi sjáanlegir. Ég gekk meðfram sjónum, á löngum kafla hafði þang
borist yfir varnargarðinn og huldi stíginn, það var ófrosið og mjúkt undir
fæti, dökkbrúnt og svargrátt undir hvítri hélu.
Í nágrenni við húsin í götunni byrjaði hundur að gelta bak við gler, kæft
gelt en ákaft og annar tók undir. Eftir svolitla stund barst annað gelt lengra
frá, þeir geltust á, ósýnilegir. Fleiri tóku undir eftir því sem ég gekk innar
eftir götunni, þeir espuðu hver annan upp. Áður en ég opnaði dyrnar heima,
enn með jafnvægi og kyrrð dagsins innra með mér, taldi ég fimm raddir,
geltandi hver upp í aðra.
17.2.14.
Ég var að ryksuga í stofunni, sólin skein inn um suðausturgluggana og birti
ryk á glerplötu á blómaborði. Mér varð hugsað til verka Marcels Duchamp,
þá sérstaklega Stóra glersins og strax á eftir til Suchan Kinoshita sem sýndi
innihaldið úr ryksugupokunum sínum í galleríi í Amsterdam í kringum
síðustu aldamót.