Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Side 89
TMM 2014 · 4 89
Péter Esterházy
Ef allt gengur vel
Þýðing: Jóna Dóra Óskarsdóttir
Viðfangsefni: þrjár setningar um Evrópu.
Í dag er Evrópa þetta: maður er beðinn um að skrifa þrjár setningar um Evrópu,
það er, Evrópa er endurminningin um Evrópu, skugginn af skugganum; til dæmis.
Setningin hér á undan var fyrsta setningin; þessi setning er önnur setningin og næsta
setning er sú þriðja.
Ef allt gengur vel.
Hver er sá sem talar og hvaðan? Þeirri stóru og dásamlegu, viðamiklu og
kvikindislegu spurningu um hver ég sé ætla ég að sjálfsögðu ekki að reyna
að svara að þessu sinni, það er viðfangsefni sem næði langt út fyrir ramma
þessa málþings.
Leggjum upp með dirfskufulla vinnutilgátu og gerum ráð fyrir því að ég
sé evrópskur. Nú bæri mér eiginlega samstundis að þegja, það hæfir ekki að
spyrja Evrópumann út í evrópskuna, því hann er evrópskur með húð og hári
veslingurinn, svo evrópskur að honum er ekki viðbjargandi, hann er hreint
og beint dæmdur til evrópskunnar, við erum að innan það sem við vildum
skoða utan frá. En við ættum svo sem að hafa vanist því að fjalla um orð með
orðum. Skrifaðu, og engan tepruskap, þannig mætti vitna, svo varla færi á
milli mála, í Danilo Kiš.
Svo ég grípi til stórra orða þá er mannleg hugsun (er til önnur?) elsk að
þversögnum, evrópskum huga þjálfuðum á Aristótelesi óar kannski meira
við þeim, vildi gjarnan gleyma þeim. Ég ætla mér ekki, og gæti heldur ekki
hætt mér inn á svið stærðfræðilegrar rökhyggju, inn í ríki Gödels, ég vildi
einungis nefna hve þrúgandi Gödel er, hve mjög við vildum gleyma honum,
þeirri fullyrðingu hans sem gengur einhvern veginn út á að í hverju kerfi
sem er laust við mótsagnir lendum við óhjákvæmilega á fullyrðingu sem er
óráðin í því kerfi, er hvorki sönn né ósönn, sem sagt, ef allar fullyrðingar eru
svo að segja gildar, þá er mótsögn í kerfinu. En nóg um þetta, það endar með
því að ég fullnægi jafnvel ströngustu skilyrðum sýndarleiksins.
En af hverju flæktist ég út í þetta? Já einmitt, hvað evrópskum sé í lófa
lagið þegar kemur að evrópskunni. Því að andstætt því sem hér var áður sagt