Tímarit Máls og menningar - 01.11.2014, Qupperneq 91
E f a l l t g e n g u r v e l
TMM 2014 · 4 91
birtist Evrópa fyrst og fremst sem einhver mergð, mettun tíma og sögu,
Evrópa sem eitthvað mikið, sem ríkidæmi. Sem frásaga, sem linnulaus ræða
og samræða. Evrópa sem pourparler.
Því er eins varið með mig og Mórits litla í skrítlunni, sem datt stöðugt það í
hug, mér kemur fyrr eða síðar skáldverkið í hug (það auðvitað líka, og vil þó
ekki meina að ég lifi tvöföldu lífi).
Evrópa er eins og skáldsagan. Við höfum alls konar hugmyndir, eigin og
sameiginlegar, um það hvað skáldsaga sé og hana má skilgreina á ýmsa vegu
‒ nokkuð sem ég ætla af gæsku minni að hlífa kollegum mínum við að þessu
sinni ‒ en hvað svo sem okkur finnst um hana hljótum við að gera okkur ljóst
að sérhver ný bók skilgreinir hana upp á nýtt eða áfram; upp frá því merkir
skáldsaga eitthvað annað, sérhver ný skáldsaga bætir við skilgreininguna
sínu eigin ‒ stundum hverfandi ‒ nýnæmi. Á þennan sama hátt hefur Evrópa
vaxið í gegnum tíðina.
Ef til vill á það einnig við um skáldsöguna ‒ ég veit það ekki, og kemst
ekki að því fyrr en ég hef lokið við þá sem ég fæst við núna ‒ að skáldsagan
sé einnig fullmettuð, að það sé engin leið áfram, en við skilgreiningu Evrópu
verður áreiðanlega ekki meiru bætt.
Á þessari öld1 efldumst við svo fallega að það er enginn vegur áfram. En
auðvitað er fjarri mér sú léttúð að segja að vegurinn sé á enda. Engin leið
áfram en enginn endir. Dauð en dó ekki.
Menning Evrópu er mörkuð Auschwitz. Eftir það verður ekkert sagt, en
þó þegjum við ekki. – Evrópskasta setningin, sú sem vitnað hefur verið
svo ótæpilega til að hún er eiginlega orðin pirrandi, óþægileg, er sú setning
Adornos sem fjallar um möguleikann á því að yrkja ljóð. ‒ Það hrun, sú
hörmulega ógæfa snýst eins og við vitum ekki fyrst og fremst um Gyðinga
og ekki um Þjóðverja, heldur um manninn. Um mannlegt eðli. Og hér liggur
einnig smán okkar, ekki vegna þess að okkur varð á í messunni heldur vegna
þess að við erum menn.
En að þetta sé svo evrópsk saga þrátt fyrir allt, hafði ekki hvarflað að mér
fyrr, það að hún skuli merkja fyrst og fremst hrun evrópskrar menningar, jú
vissulega búa allir í rústum, en okkar staða er samt sem áður ólík annarra.
Þessar vangaveltur komu upp í sambandi við kvikmyndina Listi Schindlers.
Ég álít ekki að Spielberg hafi gert Hollywood úr Auschwitz, nokkuð sem
ætti sér ekki aðra réttlætingu en þá að kvikmyndin væri gagnleg, upplýsandi
osfrv. Hér er um djúpstæðari hlut að ræða, mismun menningarheima. Það
að Auschwitz stendur okkur nær. Er ævarandi. Og tabú. Okkur leyfist ekki
að segja um það sögur. Setja í sögulegan búning. Í vissum skilningi er ekki
leyfilegt að skilja það.