Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Síða 10
9JARÐFUNDNIR KAMBAR Á ÍSLANDI FRÁ LANDNÁMI TIL 1800
spannaði 12.‒18. öld, fundust um 4600 gripir, þar af 16 kambar.4 Árið
1545 fórst herskipið Mary Rose við Englandsstrendur með um 415 manns,
að talið er, en líkamsleifar 179 manna varðveittust. Í skipinu fundust 82
kambar, sem bendir til að um 20% skipverja hafi átt kamb.5
Form kambanna er fjölbreytt, þeir smíðaðir á mismunandi hátt, stundum
eru þeir skreyttir og stundum samsettir úr nokkrum hlutum úr ólíkum
efnum sem gerir þá tæknilega áhugaverða. Kambar eru oftast úr erlendu
efni en þó eru til dæmi um kamba sem gætu, a.m.k. að einhverju leyti, verið
gerðir hér á landi úr beinum hvala og húsdýra. Kambar úr horni og beini
hafa ekki verið greindir skipulega til tegundar en langf lestir munu þeir úr
hornum hjartardýra. Hér er oftast vísað til þessara kamba sem beinkamba.
Ekki hafa fundist hér á landi vísbendingar um framleiðslu kamba, s.s.
afskurður og afhögg í miklum mæli, og hafi hráefni til kambagerðar
verið f lutt inn hefur það ekki fundist í fornleifafræðilegu samhengi. Því er
líklegra að gripirnir hafi borist til landsins tilbúnir annaðhvort í einkaeigu
eða sem verslunarvara.
Fjöldi kamba sem fundist hafa hérlendis liggur ekki alveg ljós fyrir,
stundum geta nokkur brot verið úr sama kambi án þess að hægt sé að
staðfesta það með fullri vissu. Heildartala íslenskra kamba og kambabrota
er í kringum 230.6 Allir kambar sem hægt var að nálgast voru skoðaðir
fyrir þessa rannsókn, eða um 90%. Í þeim tilvikum sem gripurinn var ekki
aðgengilegur var stuðst við ljósmyndir, teikningar og lýsingar að svo miklu
leyti sem því varð við komið. Flestir eru gripirnir á Þjóðminjasafni Íslands
en einnig á öðrum söfnum og rannsóknarstofnunum.7
Fyrri rannsóknir
Engin gerðfræðigreining var til fyrir kamba hér á landi áður en rannsóknin
hófst en vísi að slíkri greiningu er þó að finna í grein sem birtist árið
1992 og byggir á kömbum sem fundust við fornleifarannsókn á öskuhaug
á Svalbarði í Þistilfirði á 9. áratug 20. aldar.8 Til að kalla fram heildarmynd
4 Mjöll Snæsdóttir (ritstj.). Stóraborg.
5 Gardiner með Allen (ritstj.) 2005, xix; Maddocks & Richards 2005, bls. 156.
6 Nokkrar ástæður eru fyrir því að heildartala kamba er með fyrirvörum. Kambabrot geta verið af
sama kambi þótt þau falli ekki saman, sum brot eru ekki augljóslega af kömbum þótt ekki sé hægt
að útiloka þann möguleika o.s.frv.
7 Númerakerfi gripanna er mismunandi eftir því í hvaða safni eða rannsóknarstofnun þeir voru
frumskráðir. Upplýsingar um fundaraðstæður gripa eru sóttar í aðfangabækur og rannsóknarskýrslur.
Gögn um þá gripi sem þegar hafa verið skráðir í söfn má finna í Sarpi‒menningarsögulegu
gagnasafni sem er á netinu, en upplýsingar um nokkra af þeim kömbum sem hér er fjallað um eru
ekki komnar þangað ennþá.
8 Amorosi 1992, bls. 101‒127.