Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Síða 162
161UPPRIFJUN UM NÁTTÚRUNAFNAKENNINGU
talið örnefnarannsóknir sínar komnar á fastan grundvöll. Til skilnings
á náttúrunafnakenningunni – ef við viljum nota það heiti með þeim
fyrirvörum sem því þurfa að fylgja – er því öruggast að miða við það sem
Þórhallur birti eftir þann tíma. Vil ég sérstaklega benda á tvær greinar í
norrænum ráðstefnuritum, birtar á vettvangi sem ekki var vænlegur til
að vekja almenna athygli á greinunum, en þær má líta á sem endanlega
framsetningu Þórhalls á tveimur meginatriðum kenningar sinnar.
Sú fyrri birtist 1986: „Um persónunöfn í íslenzkum örnefnum.“ Þar
segir m.a.:
Rétt er að leggja áherzlu á, að niðurstaða rannsókna minna er ekki sú,
að engin persónunöfn séu í fornum íslenzkum bæjanöfnum eða öðrum
örnefnum. Líklegt er einmitt að það hafi þekkzt frá upphafi, að örnefni
hafi verið dregin af mannanöfnum, og slík örnefni hafi stuðlað að þeim
skilningi að t.d. -staða-nöfn séu yfirleitt leidd af persónunöfnum.29
Áður nefndi ég það leiðsögutilgátu Þórhalls að örnefni frá elstu tíð væru
helst aldrei kennd við einstakar persónur eða atvik. Hér sést að kenning hans
er öll önnur. Hvernig fer það nú saman að fullyrða þetta og hafa þó, að því
er virtist, kappkostað að viðurkenna ekki eitt einasta fornt örnefni leitt af
mannsnafni?
Það fer raunar ágætlega saman. Þórhallur gat talið næsta víst að einhver
hluti örnefnaforðans hafi frá öndverðu verið dreginn af persónum án þess
að telja það sérlega líklegt um neitt einstakt staðarnafn. Ef það hefði verið
gallhörð aðferð fyrstu kynslóða Íslendinga að kenna staði alls ekki við
einstakar persónur, þá er torskilið hvernig afkomendur þeirra gátu, svo
snemma sem Landnáma og Íslendingasögur votta, fengið um það alveg
gagnstæða hugmynd. Sú röksemd hefur sitt gildi þó erfitt sé að vita hvaða
örnefni hafi frá öndverðu verið kennd við fólk.
Óvissuna um hvert einstakt örnefni ræðir Þórhallur nánar í næsta
ráðstefnuriti 1987, í greininni „Forandringer i islandske stednavne.“ Þar lýsir
hann því hvernig fjöldi fornra örnefna virðist hafa breyst í meðförum, oft í þá
átt að minna fremur á mannsnafn. Þar áréttar hann að tilgátur sínar séu ekki
um reglulegar hljóðbreytingar heldur óreglulegar breytingar, og um slíkt sé
ómögulegt að ná fullri vissu („kan man ikke opnå 100% sikre resultater“).30
29 Þórhallur Vilmundarson 1986, bls. 70.
30 Þórhallur Vilmundarson 1987, bls. 373. Sbr. orð hans 2006 (bls. 214) að nákvæm athugun á
staðháttum ásamt samanburði við samnefnda staði, innan lands og utan, bendi iðulega til þess að „en
‘uregelmæssig’ navneforandring må anses for at være den mest troværdige løsning …“.