Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Side 29
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS28
verslunarstaðnum Kolkuósi var í mannvistarlögum sem aldursgreind eru
til 13. aldar.89
Hér á landi virðast E‒gerðir kamba almennt vera frá svipuðum tíma og
kambarnir í Noregi, Svíþjóð og Skotlandi en þó er munur: Koparnegldir
kambar hafa ekki fundist óyggjandi í minjum frá fyrstu tíð hér á landi og
virðast eldri en frá því 1300.90 Á Íslandi hafa kambar af þessari gerð fundist
í mannvistarlögum sem eru yngri en gjóskulag úr Veiðivötnum ~940 og
eldri en gjóskulag úr Heklu 1300. Sé mið tekið af skipan mannvistarlaga og
gerðfræði annarra gripa sem fundust við rannsóknir virðist þessi kambagerð
helst vera í notkun hér frá um miðri 11. öld til um 1200 og er algengust á
síðari helmingi 12. aldar.
Einraða kambar, steyptir úr koparblöndu, u.þ.b. 12.‒13. öld
Meðal þeirra kamba sem varðveist hafa frá fyrri öldum hérlendis eru fimm
gerðir úr koparblöndu eingöngu. Málmkambar þekkjast frá ýmsum tímum
erlendis en virðast fremur sjaldgæfir. Hinsvegar hafa ekki fundist dæmi um
kamba sambærilega við þá íslensku í útgefnu samanburðarefni og virðast
þeir almennt ekki þekkjast í söfnum í Noregi, Svíþjóð, Danmörku né
Skotlandi.91 Á Íslandi hafa verið leiddar að því líkur að þessir sérstöku gripir
gætu verið svokallaðir kirkjukambar.92
Kambarnir eru steyptir í einu lagi úr koparblöndu. Þeir eru fremur
einsleitir að gerð en skrautverkið fjölbreytt. Í okastað eru t.d. depilhringir
og krákustígar, á baki eru reist dýrshöfuð til enda, endatennur vísa út svo
kambarnir verða trapisulaga og einn er með bogadregna enda. Á sumum eru
tygilgöt. Öll eintökin eru vel varðveitt og heil. Þrír kambanna eru áþekkir
að gerð, Þjms. 12912, Þjms. 5021 og Þjms. 2006‒25‒345, eru stuttir og með
háu baki 6,2‒7x2,2‒2,9x0,6‒1 cm á stærð. Þeir bera sterk einkenni einraða
beinkamba af gerð E5 en slíkir hafa aðallega fundist í 12. aldar samhengi í
Noregi og Svíþjóð.93 Kambur Þjms. 1954‒1‒296 (mynd 17) er 10,9x2,8x0,6
cm, og með beint bak. Hann líkist kömbum af gerð E6, en sú gerð er til með
bogadregnum endaplötum og hefur fundist í lögum frá fyrri hluta 13. aldar í
Osló.94 Kambur sem fannst á Þingeyrum sumarið 2018 (mynd 16) er stærstur
89 Ragnheiður Traustadóttir (ritstj.). Kolkuós.
90 Eina undantekningin er koparneglt okabrot úr beini frá Kúabót í Álftaveri, Þjms. 2154, sem fannst í
15. aldar samhengi, óvenjulegt að gerð og ekki hægt að greina það óyggjandi.
91 Hansen 2016a; Øye 2016; Hasselmo 2016; Arneborg 2017; Ashby 2016.
92 Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1994, bls. 168‒169.
93 Wiberg 1977, bls. 208; Øye 2005, bls. 405, 410; Flodin 1989, III.21.
94 Wiberg 1977, bls. 206, mynd 17; Lidén 1977, bls. 17; Øye 2005, bls. 402‒403.