Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Síða 62
61FORNLEIFARANNSÓKN Á 19. ALDAR HVALVEIÐISTÖÐVUM Á VESTFJÖRÐUM
Áhrif hvalveiða á íslenskt samfélag
Hvalveiðum Norðmanna við Ísland við lok 19. aldar fylgdu erlend áhrif af
áður óþekktu umfangi fyrir Íslendinga. Ritaðar og munnlegar heimildir
varpa ljósi á dvöl norsku hvalveiðimannanna á Íslandi sem f léttaðist inn í dag-
legt líf Íslendinga og höfðu mikil áhrif á hinu pólitíska, menn ingar lega, og
efna hagslega sviði á þeim slóðum þar sem þeir reistu hvalveiðistöðvar sínar.
Á efnahagslega sviðinu eru ófá dæmi um að hvalveiðimenn og bændur
hafi átt í viðskiptum: keyptu bændur hvalgúanó sem túnáburð, hvalkjöt,
múrsteina sem byggingarefni og púður; í staðinn keyptu hvalveiðimenn
ýmiss konar mat.22 Hvalveiðistöðvarnar voru að auki mannfrekar og
þótt Norðmenn hafi f lutt inn erlent vinnuaf l frá Skandinavíu þá fengu
Íslendingar líka vinnu í stöðvunum, sem þótti eftirsóknarvert þar sem
greitt var út í peningum, en slíkt var fáheyrt á Íslandi á þessum tíma.23
Þessu til viðbótar er mikilvægt að geta þeirra óbeinu áhrifa sem vinna og
vera norsku hvalveiðimannanna höfðu á fiskveiðar Íslendinga. Með því
að vinna við hvalveiðistöðvarnar lærðu Íslendingar nýtt rekstrarform og
verklag á hærra stigi en þekktist á Íslandi en það átti þátt í því að kenna
Íslendingum hvernig standa skyldi að stórútvegi. Þessi áhrif áttu síðan eftir
að skila sér margfalt inn í íslenskt samfélag þegar Íslendingar hófu rekstur
fiskvinnslufyrirtækja á fyrstu áratugum 20. aldarinnar.
Næst skal vikið að áhrifum Norðmanna á sviði menningar. Með því
að stunda íþróttir og dægrastyttingu að norskum sið á Íslandi kenndu þeir
Íslendingum sem bjuggu við hvalveiðistöðvarnar nýtt hátterni til hvíldariðju
sem hafði áhrif á íslenskar skemmtanavenjur. Norsku hvalveiðimennirnir
reyndu meðal annars að kenna Íslendingum skíðagöngu og gaf Ellefsen,
hvalveiðistjóri á Sólbakka, öllum fermingarbörnum í Önundarfirði skíði
úr aski eitt vorið.24 Þótt einn og einn Íslendingur hafi verið hrifinn af slíkri
íþrótt voru hins vegar f lestir á því að skíðaganga væri ekki fyrir þá.25 Þó
er áhugavert að í dag er skíðaganga ein vinsælasta íþrótt á norðanverðum
Vestfjörðum og hafa vestfirskir skíðagöngumenn lengi verið fremstir í
f lokki í þeirri íþrótt á landinu. Hvalveiðimennirnir kenndu Íslendingum
einnig nýja dansa, söngva og hljóðfæraleik. Í því sambandi er vert að nefna
að danspallur var byggður við hvalveiðistöðina á Sólbakka og á stöðinni á
Höfðaodda var reist samkomuhús, nefnt Friðheimar (n. Fredheim).26
22 „Bull gaf hvalkjöt“ 1969, SÁM 90/2102 EF; sjá einnig Trausti Einarsson 1987, bls. 72.
23 Trausti Einarsson 1987, bls. 104.
24 ÞÞ 5568.
25 „Skíðagöngur“ 1899, bls. 118.
26 Valdimar Haukur Gíslason 2004, bls. 227‒228.