Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Blaðsíða 156
155UPPRIFJUN UM NÁTTÚRUNAFNAKENNINGU
hlýtur (augljóslega þegar Þórhallur var kominn með myndir af því) að
draga nafn af klettahryggjum sem ganga upp og ofan hlíðina, hvort sem
þeir hafa minnt á tálknboga í fiski eða á skíðin í skíðishval (sem líka hétu
tálkn að fornu, t.d. í einni af vísum Egils). Það var líka minnisstæð skýring,
og á endanum sannfærandi, að Skorradalur og Flókadalur drægju nafn af
lögun sinni, annar djúpur og þröngur eins og skor, hinn næstum of f latur
til að vera dalur. Þá þyrfti fyrra nafnið reyndar að hafa breyst, og viti
menn, frummynd þess gat að líta í handritum Harðar sögu: Skora(r)dalur.
Skýringin á Flókadal virtist við fyrstu sýn út í hött, en ekki lengur þegar
Þórhallur benti á að f lóki merkir m.a. f latfiskur, auk þess sem orðsifjar
staðfesta þá merkingu orðstofnsins.15
Að láta sannfærast um skýringar sem þessar, það var ekki síst skemmtilegt
af því að þá gat maður reynt sjálfur, horft á landið og freistað þess að lesa úr
því skýringar á nöfnum. Slíkar hugmyndir er ekki svo erfitt að fá, annað
mál að rökstyðja þær.
Ég æfði mig fyrst á bæjarnafninu Unnarholti í Hrunamannahreppi (næsta
bæ við jörð afa míns, Unnarholtskotið). Mér hafði skilist að bærinn væri
kenndur við konu, hafði jafnvel verið sýnd af löng þúfa við brekkurætur
sem átti að vera „leiði landnámskonunnar“. En ætti þetta ekki frekar að
vera náttúrunafn? Nú fannst mér upplagt að af langri hæð, sem bærinn
stendur undir, hafi verið líkt við unni (í merkingunni ‘alda’). Löngu seinna
kom f latt upp á mig að Þórhallur hefði allt aðra hugmynd; ég kem að henni
síðar.
Af þjóðveginum milli Hrunamannahrepps og Reykjavíkur mátti
sjá Hest fjall í Grímsnesi. Það hlyti nú að vera náttúrunafn, fjallið kennt
á einhvern hátt við lögun sína. En Hestfjall er langt og lágt, varla líkt
neinu dýri nema liggjandi. Og hestur er ekki svo ólíkur öðrum liggjandi
hús dýrum fyrr en hann leggst f latur á hliðina og teygir frá sér hausinn;
þá verður hann sérkennilega þunnur um hálsinn og bógana en kviðinn
ber hæst. Frá vissum stað á þjóðveginum þóttist ég greina þetta form á
fjallinu og fannst það hlyti að koma skýrar fram frá réttu sjónarhorni.
Þessi skýring hefði mér varla fundist svo upplögð hefði ég vitað að hæstu
klettar á fjallinu heita Hesteyru, eins og það sé kennt við hest sem liggur
allt annað en f latur. Kannski er skárri hugmynd mín um Svínahraunið; þar
horfði ég á lága kletta í úfnu hrauninu, ímyndaði mér það viði vaxið og
að klettarnir hefðu þá staðið upp úr kjarrinu eins og hryggir á risasvínum,
15 Sjá Íslenska orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar, bls. 193, þar sem bæði er bent á skyld orð í
öðrum germönskum málum og skyldleika við orð eins og fláki og fleki.