Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Page 153
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS152
hefði tjáð afstöðu sína með kunnum hendingum Hannesar Hafstein:5 „En
ég fyrir mitt leyti játa það glaður / að ég er – náttúrunafnamaður.“
Það var einmitt Kristján, þá þjóðminjavörður, sem tók upp á sína
arma tillögu Þórhalls um Örnefnastofnun sem deild í Þjóðminjasafni, að
sjálfsögðu með Þórhall sem forstöðumann og það meginverkefni að skapa
honum aðstöðu til að halda áfram örnefnarannsóknum sínum, jafnframt
því sem hann tæki við umsjón með örnefnasöfnun sem Þjóðminjasafn
hafði sinnt áður. Þessu verkefni tók Þórhallur við, jafnframt prófessorsstarfi
sínu, sumarið 1969, þrátt fyrir mótmæli málfræðikennara Háskólans sem
töldu nafnfræðirannsóknir eiga að lúta stjórn málfræðings.6 Til greina
hafði komið að örnefnasöfnun Þjóðminjasafns færðist til nýtilkominnar
Handritastofnunar (nú Stofnunar Árna Magnússonar – sem síðar átti
einmitt eftir að taka við verkefnum Örnefnastofnunar). Þess í stað var fallist
á tillögu Þórhalls um sérstaka örnefnastofnun á vegum Þjóðminjasafns.
Þar hefur væntanlega ráðið úrslitum áhugi ráðherra og þjóðminjavarðar á
rann sóknum Þórhalls. En vinnubrögð hans: ferðalög og vettvangsathuganir
ásamt myndatöku og kortagerð, áttu líka hliðstæðu í fornleifarannsóknum
Þjóðminjasafnsins miklu fremur en neinu sem unnið var hjá Handrita-
stofnun eða heimspekideild Háskólans.
… hvað fennir oft fljótt í sporin
Um þetta leyti kynnti Þórhallur niðurstöður sínar ekki aðeins í fyrirlestrum
– þriðju lotuna af þeim hélt hann 1973 – heldur tók hann að birta
sérrannsóknir um afmarkaða f lokka örnefna,7 auk þess sem hann skrifaði
stutt yfirlit um íslensk -staða-örnefni í Kulturhistorisk Leksikon 1971,8 og var
það lengi aðgengilegasta heimild um náttúrunafnakenninguna, sem Þórhallur
nefndi svo. Sú grein var, ásamt nokkrum blaðsíðum um örnefni sem
heimildir í fjölriti eftir Þórhall,9 meðal lesefnis í aðferðafræðinámskeiði
í sagnfræði til kandídatsprófs. Það námskeið tók ég, reyndar hjá öðrum
5 „Niðurskurðarmaður“ hét það hjá Hannesi, með vísun til fjárkláðans, þar sem hann lýsti róttækni
sinni gagnvart spilltum hugsunarhætti.
6 Fyrst á deildarfundum heimspekideildar, síðan með yfirlýsingu í blöðum, sjá t.d. Tímann 7. sept.
1969 („Yfirlýsing um Örnefnastofnun og Nafnfræðistofnun“); sbr. greinargerð Þórhalls 9. sept.;
sbr. einnig viðtal við menntamálaráðherra, „Örnefnastofnun Þjóðminjasafns komið á fót,“ í
Morgunblaðinu 14. ágúst 1969.
7 Einna fyrst 1969 um Hálfdanar-nöfn (Þórhallur Vilmundarson 1969a). Hliðstæðar rannsóknir birti
Þórhallur í fleiri afmælisritum, síðar einkum í riti Örnefnastofnunar, Grímni I–III.
8 Þórhallur Vilmundarson 1971, d. 578–584.
9 Þórhallur Vilmundarson 1969b.