Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Page 86
ÁGÚSTA EDWALD MAXWELL
KÖNNUNARRANNSÓKN Á
VESTURBÚÐARHÓL Á EYRARBAKKA
Inngangur
Sumarið 2017 var gerð könnunarrannsókn á Vesturbúðarhól á Eyrarbakka.
Þar stóðu verslunarhús frá upphafi 18. aldar og fram til 1950, þegar þau
voru rifin. Tilgangur rannsóknarinnar, sem fól í sér jarðsjármælingar
og uppgröft, var að kanna umfang, aldur og ástand minja á svæðinu.
Vesturbúðarhóll er hluti af merkilegri þyrpingu minjastaða á Eyrarbakka
sem bera sögu hans sem fyrrum verslunarstaðar vitni.1 Þar ber helst að nefna
kaupmannshúsið, Húsið (byggt 1765), sem nú hýsir Byggðasafn Árnesinga.
Húsið er um hundrað metrum vestan við hólinn. Fast sunnan við hann er
sjóvarnargarður sem var reistur til varnar verslunarbúðunum um miðja 19.
öld. Á garðinum var hlið, sem nú hefur verið fyllt upp í og sunnan við það
sér enn móta fyrir Vesturbúðarbryggju í f læðarmálinu. Fast norðan við
Vesturbúðarhól er Skúmsstaðahverfi þar sem fjölmörg hús frá seinni hluta
19. aldar standa á eða í nágrenni bæjarhóls landnámsbýlisins Skúmsstaða (sjá
mynd 3). Verslunarstaðurinn var í túnjaðri bæjarins og má því telja fullvíst
að starfsemi af einhverju tagi hafi farið fram á Vesturbúðarhól áður en
fyrstu verslunarhúsin voru byggð. Á hólnum, sem í raun er ójöfn grasf löt,
glittir víða í leifar verslunarhúsanna og á honum miðjum er líkan af þeim í
þeirri mynd sem þau voru áður en þau voru rifin (sjá mynd 1‒2).
Skipta má ástæðum þess að könnunarskurðurinn var grafinn í tvennt.
Í fyrsta lagi býður minjastaðurinn upp á fornleifafræðilega rannsókn á
því hvernig nútíma neyslumenning þróaðist á Íslandi. Frá byrjun 18.
aldar til 1950, þann tíma sem verslunarhús stóðu á Vesturbúðarhól, áttu
sér stað stórkostlegar breytingar í neyslu og viðskiptaháttum á Íslandi.
Þessar breytingar, oft kenndar við neyslubyltingu (e. consumer revolution)
og nútímavæðingu, hljóta að vera eitt af aðalrannsóknarverkefnum
1 Margrét Hrönn Hallmundsdóttir og Guðlaug Vilbogadóttir 2015.