Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Blaðsíða 14
13JARÐFUNDNIR KAMBAR Á ÍSLANDI FRÁ LANDNÁMI TIL 1800
en tvíraða, eða 132, þar af eru samsettir 129 og ósamsettir þrír. Tvíraða
kambar eru 74, þar af eru samsettir 38 og ósamsettir 36. Brot sem ekki verða
f lokkuð eru 24.
Hér á eftir verða kambarnir raktir í aldurs röð, fyrst er umfjöllun um
kamba frá víkingaöld, þá miðöldum og að lokum nýöld, fram til um 1800.
I. Kambar frá víkingaöld, 9.‒11. öld
Flestir jarðfundnir kambar og kambabrot á Íslandi eru frá víkingaöld, alls
rúmlega 80 talsins. Megineinkenni þeirra eru að vera úr beini/horni,
einraða, samsettir og járnnegldir, en að öðru leyti fjölbreyttir að formi
auk þess að vera ristir skrautverki. Þar á meðal hafa fundist kambar í 20
íslenskum kumlum.
Víkingaaldarkambarnir eru gerðir úr nokkrum hlutum og lýsir Kristján
Eldjárn kambi frá Ytri‒Fagradal, Þjms. 1965‒202, á þann hátt að vel má yfirfæra
á aðra kamba frá þessum tíma: „… gerður á sama hátt og allir fornir kambar,
tveir kúptir okar við bak báðum megin og tennurnar sagaðar í beinþynnur,
sem klemmdar eru milli okanna og allt neglt með járnnöglum.“20 Okarnir
bera merki eftir sagarblaðið því að það fór í okana þegar sagað var fyrir
tönnunum og eru sagarförin eitt af þeim einkennum sem leitað er eftir þegar
meint okabrot finnast. Eitt af einkennum við smíðina er að það er sagað styttra
upp í endaplöturnar svo að við kambendana verður til breiðari endatönn eða
endastykki, f lötur sem stundum er skreyttur eða í borað gat. Endaplötur eru
tvenns konar; annað hvort beinar og mynda rétt horn við okana eða vísa
út svo að kambarnir fá svolítið trapisulaga form. Hafi kambar verið í slíðri
myndar endaplata rétt horn við oka og er þá oftast gat á endaplötunni sem er
hluti af festingarbúnaði, þar var tappi til að festa kambinn í slíðrinu. Sé gat á
endaplötu sem ekki er hornrétt er talið að það sé frekar fyrir band, tygilgat.21
Okar á víkingaöld hafa f lestir fremur f latt þversnið en brúnir eru oftast
rúnnaðar. Okarnir eru breiðastir í miðjunni en mjókka til endanna og þar
hefjast þeir stundum aftur upp á við og minna endarnir þá á dýrshausa sem líta
upp. Okarnir eru ristir skrautverki og er þeim stundum skipt í f leti. Skrautið
er fjölbreytt og óhlutbundið og samanstendur af lóðréttum og láréttum
þverstrikum, krossum, tíglum, bandmynstri, punktum og depilhringjum.
Undantekningar frá almennu formi við gerð kambanna eru ekki margar en
hér skal nefna tvær. Frá Skútustöðum í Mývatnssveit, SKU11‒1033/1034, er
20 Kristján Eldjárn 1969, bls. 133.
21 Smirnova 2005, bls. 29.