Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Síða 89
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS88
hólinn mættu bændur austan úr Skafafellssýslum og ofan úr Hreppum með
vaðmál, prjónles, ull, fisk og lýsi. Það er á stöðum sem þessum sem unnt er
að finna efnislegar rætur þeirrar samfélagsgerðar sem ruddi sér rúms á 20.
öldinni og draga af þeim lærdóm.
Í annan stað var könnunarrannsóknin fyrsta skrefið í að vekja athygli
á minjunum á Vesturbúðarhól í nærsamfélaginu. Hnignun er eins konar
þrástef í sögu Eyrarbakka. Þorpið, sem eitt sinn var eitt stærsta byggðarlag
landsins, var í upphafi 21. aldar lítið úthverfaþorp með sjálfvirkri bensínstöð
og sjoppu.8 Hnignunarstefið gerir ráð fyrir fornri gullöld og má í því
samhengi segja að Vesturbúðarhóll sé rúst gullaldarinnar. Í fornleifum búa
miklir möguleikar til að hefja samtal um fortíðina og hvaða áhrif hún
hefur á samtímann. Fornleifafræðingar eru almennt mjög meðvitaðir um
mikilvægi þess að kynna niðurstöður sínar fyrir almenningi, enda rannsóknir
oft unnar fyrir almannafé. Ein leið til miðlunar á menningararfinum er
svokölluð samfélagsfornleifafræði. Samfélagsfornleifafræði er víða stunduð
erlendis9 og felur í stórum dráttum í sér að almenningur er hafður með
í ráðum við skipulag, framkvæmd og túlkun gagna. Samfélags forn leifa-
fræði þar sem fornleifafræðingar vinna í náinni samvinnu við heimafólk og
áhugasama getur verið áhrifamikil leið til rannsókna. Hin verklega þátttaka
í fornleifauppgreftri, gripagreiningu og túlkun niðurstaðna er gagnvirk leið
til að ef la samfélög, fyrst og fremst með þekkingu á sögunni en einnig til
að dreifa eignarhaldi á fortíðinni og valdinu til frásagna á milli þeirra sem
málið varðar, fræðimanna sem og almennings. Fyrir smærri samfélög sem
upplifa sjálf sig í endurskilgreiningarferli, t.a.m. þorp sem þróast frá því að
vera verslunarstaður og sjávarþorp í að vera úthverfi eða ferðamannastaður,
geta minjar skipt miklu máli fyrir sjálfsmynd og skilning fólks á sögunni og
hvernig fortíð, nútíð og framtíð tvinnast saman.
Fortíðin
Hafnar að Eyrum, þar sem síðar reis þorpið Eyrarbakki, er víða getið í
heimildum og hún er, ásamt höfnunum við Hvítá í Borgarfirði og að
Gásum í Eyjafirði, talin hafa verið með langmikilvægustu höfnum á Íslandi
á 13. öld.10 Hún var heimahöfn Skálholtsstóls en jarðirnar Einarshöfn og
Skúmsstaðir, sem vesturhluti þorpsins er byggður á, voru eign biskupsstólsins.
8 Um hnignun þorpsins um aldamótin 1900 sjá Guðmundur Gísli Hagalín 2013.
9 Sjá t.d. Holtorf 2007; Moshenska 2017.
10 Helgi Þorláksson 2017, bls. 62.