Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Blaðsíða 78
77FORNLEIFARANNSÓKN Á 19. ALDAR HVALVEIÐISTÖÐVUM Á VESTFJÖRÐUM
verið bræðslur. Þær voru reistar eins nálægt þeim hluta eyrarinnar þar sem
hvalir voru f lensaðir og mögulegt var. Það hefur verið hagræði enda var
reynt að hafa tímann frá því að hvalurinn var skutlaður og þar til hann var
unninn í lýsi sem skemmstan. Af sömu ástæðu hafa lýsispallar ekki verið
fjarri bræðslunni. Við hvalveiðistöðvar voru byggðar bryggjur og skipakvíar,
þar sem skip voru bæði fermd og affermd. Ummerki um skipakvíar eru
eingöngu sýnileg á Uppsalaeyri en samkvæmt uppdrætti var einnig skipakví
á Höfðaodda. Skipakvíar voru sá staður þar sem viðgerðir á skipum fóru fram
en engin ummerki um þurrkvíar fundust við rannsóknina. Við bræðslur
og skipakvíar hvalveiðistöðvarinnar voru gjarnan smærri byggingar sem
hafa verið kolageymslur og aðrar tegundir af skemmum. Skýrasta dæmið
um hið almenna skipulag sem lýst er hér að ofan er á hvalveiðistöðinni
á Uppsalaeyri. Þar var bræðslan staðsett yst á eyrinni, skammt undan til
suðvesturs var lýsispallur og fast norðan við bræðsluna skemma. Allra syðst á
hvalveiðistöðvarsvæðinu, á suðurenda eyrarinnar, var skipakví stöðvarinnar,
um 110 m SSA við bræðsluna (sbr. mynd 3).
Skráning gripa sem sáust á yfirborði og rannsókn minja á hafsbotni
gaf betri mynd af umsvifum og eðli hvalveiðistöðvanna. Þetta kemur
hvað best í ljós á Dvergasteinseyri en þar gaf neðansjávarkönnunin sterka
vísbendingu um að skip hafi verið fest á norðurhluta eyrarinnar og að þar
hafi verkun hvala farið fram. Bæði bentu bryggjuleifar, tveir bryggjupollar
norðanmegin í fjörunni og talsvert magn balleststeina á hafsbotninum til
þess að á því svæði hafi skip legið við festar.
Með því að hnitsetja þá gripi sem lágu á yfirborði var hægt að greina
nánara hlutverk sumra bygginga, eins og smiðjunnar á eyrinni sem reist
var fjarri öðrum mannvirkjum sökum eldhættu. Flestir skráðu gripanna
voru leirmunir; múrsteinar, diskar, skálar og bollar, glermunir; vín- og
bjórf löskur en einnig voru skráðir járngripir og voru þeir f lestir ýmiss
konar verkfæri. Aðeins fáir gripir voru fjarlægðir til nánari greiningar og
skreytingar og merkingar á leirmunum sýndu að þeir voru allir frá seinni
hluta 19. aldar (mynd 13). Ein skál var merkt skipafélaginu Det Norske
Dampskibselskab og önnur var merkt gufuskipinu Norway, sem sigldi með
farþega frá Noregi til Bretlandseyja um 1900.53
Á síðastliðnum 15-20 árum hefur umfjöllun um ástand strandminja
aukist í löndum við Norður-Atlantshafið, t.d. á Bretlandseyjum, í Frakk-
landi og Bandaríkjunum.54 Rannsóknir á strandminjum beggja vegna
53 Bonsor 1975, bls. 110–130.
54 Ashmore 1994; Dawson 2007.