Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Side 169
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS168
mín fyrir því er grein eftir Gísla Sigurðsson42 um Landnámu, eðli hennar
og heimildargildi. Gísli sér „tilefni til að fullyrða að einhver samfella hafi
verið í munnlegri geymd frá landnámi til ritunartímans“ og sé Landnáma
„áreiðanleg heimild um þær sögur og hugmyndir sem fólk hafði um
fortíðina á ritunartímanum.“ Sé ég ekki betur en fyrir þessu færi hann
álitleg rök. Hins vegar hafnar hann því að Landnámuhöfundar hafi
„skáldað upp sögur sínar frá örnefnunum einum saman“ enda bendi ekkert
„til þeirra ólíklegu aðstæðna að landið hafi allt verið þakið sögulausum
örnefnum sem fólk á tólftu og þrettándu öld hafi byrjað að skýra fyrir sér
með skálduðum upprunasögum þegar sest var niður við ritun Landnámu.“
Þá hugmynd segir Gísli að hver hafi haft eftir öðrum „eftir að Þórhallur
Vilmundarson kom fram með örnefnakenningar sínar.“
Sjálfsagt er það rétt, úr því Gísli segir það, að hann hafi heyrt fólk
túlka náttúrunafnakenninguna á þennan einstrengingslega máta. Hún er
þá skilin í anda þeirra fræðimanna sem stranglegast vilja forðast að gera
sér hugmyndir um annað en það sem heimildir ná til. Í þeirri viðleitni
er hægt að ofgera og ganga út frá því að hugmyndir, sem fram koma í
ritheimildum, hafi ómögulega kviknað fyrr en við ritunina. Slíkri túlkun
er ekki furða þó Gísli sjái ástæðu til að andæfa. Hins vegar þyrfti það að
fylgja sögunni að þetta er ekki ályktun Þórhalls sjálfs, hvað þá að það sé
nein óhjákvæmileg niðurstaða af náttúrunafnakenningunni. Hún snýst um
það hvernig menn endurtúlkuðu örnefni og breyttu þeim jafnvel um leið,
ekki hvenær það var gert eða hvort það gerðist í munnlegum fræðum eða
rituðum. Að það hafi gerst á ýmsum stigum, í þeirri samfellu munnlegrar
geymdar sem Gísli sér að baki Landnámu, það brýtur á engan hátt í bága
við niðurstöður Þórhalls. Gagnvart Landnámu mætti trúlega snúa við
ályktun hans um Þorskfirðinga sögu, reikna með að örnefnasagnir hennar
séu líklega margar sóttar í gömul munnmæli, þó að sumar kunni að vera
tilbúningur rithöfunda.
Reyndar má ætla að samhengi sagnamyndunar og söguritunar hafi
verið f lóknara þegar Landnáma átti í hlut. Þó að hún sé, eins og eins og
Gísli segir, „áreiðanleg heimild um þær sögur og hugmyndir sem fólk hafði
um fortíðina á ritunartímanum,“ þá voru þær hugmyndir ekki endilega
neitt ævafornar. Sögur eru alltaf að myndast. Eins og sú sem mér var sögð
um „leiði landnámskonunnar“; hún veit ég ekki til að neins staðar sé skráð,
getur varla verið eldri en þúfan, en þúfur í hallandi landi eru víst ekki
mjög varanlegar; og trúlegast að hún hafi ekki kviknað fyrr en á 20. öld
42 Gísli Sigurðsson 2015.