Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Síða 140
139FERÐASAGA MÓSAÍKFLÍSA – PORFÝRSTEINAR Á ÍSLANDI
rannsóknir um endurnýtingu á porfýr. Því er aðeins hægt að rekja gripina
með vissu þangað sem efniviðurinn hefur verið sóttur upphaf lega, þ.e. að
græni steinninn hafi verið fenginn frá Lakóníu í Grikklandi og sá rauði
frá Egyptalandi.192 Ekki hefur enn verið varpað fyllilega ljósi á hver ástæða
þess sé að græni porfýrinn er mun algengari en hinn rauði í norðvestur-
evrópskum fundasöfnum miðalda. Velta má fyrir sér hvort græni
porfýrsteinninn hafi einfaldlega þótt eftirsóknarverðari í altarissteina, til
að mynda af því að ólík merking hafi verið lögð í þessar gerðir steinsins og
þá m.a. tengst tákngildi græna litarins eins og áður segir.
Dreifing porfýrs um Norðvestur-Evrópu er auk þess óljós en helsta
kenningin sem skýrir hana er tengd ferðum pílagríma.193 Fjöldi fundinna
porfýrgripa í Norðvestur-Evrópu bendir þó til þess að erfitt sé að skýra
dreifingu steinanna með stökum ferðum pílagríma.194 Meðal annarra
mögulegra ástæðna fyrir dreifingu porfýrs má nefna kenningu Steinunnar
Kristjánsdóttur um tengsl porfýrsteinsins á Þórarinsstöðum við skipulagðar
ferðir trúboða til landsins, sem sendir voru hingað af kaþólskum yfirvöldum
í lok víkingaaldar.195 Rökstyðja mætti þá kenningu með fyrrnefndri
tengingu porfýrsteinanna við Þýskaland, samkvæmt kenningu Sten
Tesch,196 en þekktir trúboðsbiskupar komu jafnan þaðan eða frá Englandi.197
Þar sem heimildir skortir um endurnýtingu á porfýr á Englandi er tenging
porfýrsteinanna við enska trúboðsbiskupa þó óljós. Þriðja kenningin er
einfaldlega sú að porfýrsteina hafi verið af lað sem verðmætra altarissteina
fyrir ýmsar kirkjur, mögulega fyrir tilstilli biskupa.198
Íslenska fundasafnið í samanburði við Norðvestur-Evrópu
Fjölbreytt stærð og lögun íslensku porfýrgripanna torveldar túlkun á notkun
þeirra þar sem lögun þeirra og stærð hefur að öllum líkindum ráðist af fyrri
notkun þeirra erlendis199 en ekki af hlutverki þeirra hérlendis á miðöldum.
Ríkjandi túlkun á steinunum á Íslandi hefur verið sú að þeir hafi verið
notaðir sem altarissteinar.200 Er það langsennilegasta túlkunin á mörgum
192 Peacock 1997, bls. 712; Koutsovitis o.fl. 2016.
193 Lynn 1984, bls. 26–27.
194 Sama heimild, bls. 27.
195 Steinunn Kristjánsdóttir 2004, bls. 68, 143.
196 Tesch 2007, bls. 53‒54.
197 Hjalti Hugason 2000, bls. 135‒147.
198 Hildigunnur Skúladóttir 2011, bls. 30.
199 Tesch 2014.
200 Hildigunnur Skúladóttir 2011; Steinunn Kristjánsdóttir 2004, bls. 66–68.