Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Blaðsíða 114
113FERÐASAGA MÓSAÍKFLÍSA – PORFÝRSTEINAR Á ÍSLANDI
fremur notaður í opus sectile gólf- og veggskreytingar32 sem er mósaíkgerð
þar sem hver steinn er tilskorinn sem hluti af skreytingunni, ólíkt algengari
gerð mósaíkur þar sem mörg lítil brot eru sett saman.33 Grænir og rauðir
porfýrsteinar voru þó einnig oft notaðir saman í skreytingum, svo sem í
gólfum og veggjum en gólf gerð úr báðum porfýrsteinunum voru nefnd
opus alexandrinum.34
Rauði porfýrsteinninn, porfido rosso antico, var vinsæll í Rómaveldi
enda var purpuralitur tákn efri stétta. Rauður porfýr var tekinn upp sem
keisaralegt merki á tíma Hadríanusar á 1. öld e.Kr. en það var fyrst með
Díókletíanusi um 300 e.Kr. sem rauði porfýrinn varð tákn algers valds eða
einveldis.35 Í kjölfar þess var rauði porfýrsteinninn nær eingöngu notaður
sem merki keisaralegs valds bæði í skreytingum, steinþróm (sarcophagi) keisara
og styttum þeirra (sjá mynd 2), þó að ekki hafi verið um að ræða keisaralega
einokun.36 Merking egypska porfýrsteinsins hélst hin sama meðal býsönsku
keisaranna en sem dæmi um táknrænt gildi porfýrsteinsins fengu börn
keisarans titilinn porphyrogennetos, porfýrfæddur, ef þau voru getin innan
valdatíðar keisarans.37 Á tímum Konstantínusar mikla (306–337 e.Kr.) var
einnig farið að skreyta kirkjur með steininum á sama hátt og keisarahallir.38
Spolia: Endurnýttir rómverskir porfýrsteinar
Endurnýting á porfýr er þekkt frá síðfornöld en þó að námugrefti á
porfýrnum hefði verið hætt fyrir lok 5. aldar þá hélt eftirspurnin eftir
efniviðnum áfram.39 Býsönsku keisararnir kölluðu porfýr til að mynda
rómverska steininn en það hefur verið rakið til þess að steinninn var sóttur
til Rómar sem spolia,40 endurnýttur efniviður eða stuldur á efniviði.41
Slík endurnýting hefur verið túlkuð sem praktísk og hentug en einnig
er talið að fagurfræðilegt og táknrænt gildi spolia geti hafa legið að baki
endurnýtingunni.42 Hlutur gæti því hafa fengið gildi sitt til að mynda
sökum þess að hann var endurnýttur úr rómversku samhengi.
32 Bracker–Wester 1989, bls. 11.
33 Encyclopaedia Britannica, Opus sectile.
34 Del Bufalo 2012, bls. 15.
35 Sama heimild, bls. 26.
36 Sama heimild, bls. 27–29.
37 Tesch 2007, bls. 52; Peacock 1997, bls. 712.
38 Del Bufalo 2012, bls. 33; Bracker–Wester 1975, bls. 124.
39 Del Bufalo 2012, bls. 18.
40 Peacock 1997, bls. 712.
41 Stylegar 2010, bls. 65.
42 Saradi 1997, bls. 397–401.