Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Page 110
109FERÐASAGA MÓSAÍKFLÍSA – PORFÝRSTEINAR Á ÍSLANDI
Flestir íslensku gripanna eru úr hinum græna porfýr frá Grikklandi. Heiti
steinsins hefur verið þýtt á íslensku á ýmsa vegu, svo sem purpurasteinn,
porphyr, porfýri, porfýr, porfýrsteinn o.f l. Hér verður notast við heitið
porfýr eða porfýrsteinn til einföldunar. Má ætla að porfýr hafi einfaldlega
verið nefndur marmari á Íslandi á miðöldum, sbr. að í Tómas sögu postula
er porhyreticis lapidibus þýtt sem marmarasteinn.6 Rímar það við þekkt
viðhorf til steinsins fyrr á tíð þegar litið var á hann sem tegund af marmara,7
en samkvæmt nútímaskilgreiningu er marmari myndbreytt berg sem er
oftast samsett úr kalsít eða dólómít8 og því alls ólíkt porfýr. Algengasta
túlkunin á notkun þeirra porfýrsteina sem fundist hafa á Íslandi er sú að
um altarissteina úr kaþólskum sið sé að ræða.
Íslenskir altarissteinar
Hið kristna altari, helgasti staður kirkjunnar, á uppruna sinn að rekja til
heiðinna fórnaraltara en í táknheimi miðaldakirkjunnar endurspeglaði
altarið borðið sem síðasta kvöldmáltíðin fór fram við eins og lýst er í
guðspjöllunum. Í upphafi kristni voru ölturu almennt úr tré og af einfaldri
gerð en með tímanum þróaðist útlit þeirra og varð þá algengara að ölturu
væru úr steini.9 Samkvæmt kirkjulögum miðalda mátti aðeins syngja
messu ef altari var úr steini eða altarissteinn var fyrir hendi ef altarið var
úr tré.10 Hefur þessi áhersla á steinaltari eða altarissteina verið túlkuð út frá
notkun steinsins sem tákns Krists í guðspjöllunum.11 Þar sem ölturu voru
nær eingöngu úr tré hérlendis, líkt og víða í Norður-Evrópu,12 var á þeim
hafður vígður altarissteinn í kaþólskum sið13 en steinninn var vígður af
biskupi eða ábóta sem fengið höfðu til þess leyfi frá páfa.14
Vígðra altarissteina, bæði lausra og fastra, er getið í skriftaboðum Þorláks
biskups frá árinu 1178 en þar segir um messuhald:
„ef prestr syngr messo suo ath hann hefir eige þessa reido til alla. ametto.
ok messoserk stolo ok hokol. handlijn corporaal kalek ok patijno. vijn ok
uatn. oblato. uijgdan alltaris stein fastan eda lausan. ok bækr suo hann
6 Unger 1874, bls. 716.
7 Pliníus eldri 1855, bók XXXVI, kafli 11.
8 Winter 2010, bls. 472.
9 Arnau 2009, bls. 94‒95.
10 Magnús Már Lárusson 1956, bls. 114-115.
11 Bracker‒Wester 1975, bls. 125.
12 Howe 2016, bls. 166.
13 Guðbjörg Kristjánsdóttir 2004, bls. 251.
14 Magnús Már Lárusson 1956, bls. 115.