Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Blaðsíða 163
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS162
Breytt nöfn og brengluð?
Túlkun sína á staðanöfnum setur Þórhallur oft fram með fyrirvara, eins og
dæmi eru nefnd um hér að framan. Það séu f lestir Torfastaðir, ekki endilega
allir, sem kenndir séu við torfristu, tilteknir Bollastaðir kunni að vera kenndir
við naut þótt aðrir heiti eftir laut í landslagi, o.s.frv. Leiðsögutilgáta
hans er þó greinilega sú að hafna sem allra f lestum mannanafna- og
atvikaskýringum og leita annarra í staðinn, jafnvel þó aðeins sé við líkindi
að styðjast. Hefur þá sumum blöskrað hve langsóttar líkur hann tínir til,
einkum þegar hann þarf að gera ráð fyrir breytingum á örnefnunum.
Dæmi um það hér að framan eru Skorardalur > Skorradalur, þar sem báðar
myndirnar koma þó fyrir í fornritum, *Bolastaðir > Bollastaðir þar sem eldri
orðmyndin er aðeins tilgáta þó hún sé studd samanburði við áþekk nöfn,
Njarðvík úr einhverju í áttina við *Nærvík og nöfn með stofnunum Hún- og
Unn- sem breyttir séu úr *Hunn- og allt saman skylt tilgátusögninni *hinna.
Fræðileg gagnrýni á kenningu Þórhalls hefur einkum beinst að djarf legum
tilgátum hans um slíkar breytingar, breytingar sem sumar krefjast „rigeligt
mange krumspring i de lydhistoriske udviklinger,“ eins og bókað var eftir
umræður um einn fyrirlestur hans hjá norrænum nafnfræðisamtökum.31
Breytingarnar, sem Þórhallur gerir ráð fyrir á örnefnum,32 eru í mörgum
tilvikum skjalfestar, a.m.k. þannig að ritheimildir geyma báðar myndir
örnefnanna, og oft staðfestir aldur heimildanna að breytingin hefur gengið
í þá átt sem Þórhallur gerir ráð fyrir. Slíkum dæmum má skipta í nokkra
f lokka:
Breyttur stofn:
• Álsey > Álfsey
• Brandslækur > Brjánslækur
• Brautavatn > Bretavatn
• Dunustaðir > Dönustaðir
• Mostungur > Márstungur
• Rúgstaðir > Rútstaðir
• Skollatunga > Sörlatunga
• Skorardalur > Skorradalur
• Svínavatn > Sveinavatn
Jafnvel báðir stofnar í samsettum orðhluta:
• Ófriðarstaðir > Jófríðarstaðir
Hitt er líka algengt að breytta nafnmyndin sé á einhvern hátt „efnismeiri“.
31 Þórhallur Vilmundarson 1992, bls. 53.
32 Hér miðað við fyrrnefnda grein hans frá 1987.