Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Síða 143
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS142
líklega verið notaðir til skreytingar, í opus sectile gólf eða veggi, sem hafa
þá verið brotin upp síðar meir, líklega snemma á miðöldum.216 Hafa þeir
síðan ratað til Íslands og f leiri landa þar sem margir þeirra hafa skreytt
ölturu og gegnt trúarlegu hlutverki innan miðaldakirkjunnar. Mætti til að
mynda skipta þessari „ævi“ upp í eftirfarandi tímabil: upprunalega vinnslu
og verslun, notkun í rómversku samhengi, endurnýtingu og verslun,
notkun í miðaldasamhengi. Á þessum mismunandi tímabilum hafa sömu
porfýrsteinarnir haft mismunandi hlutverkum að gegna og ólík merking þar
af leiðandi lögð í þá. Sem gólf- eða veggskreytingar í rómversku samhengi
hafa þeir verið hluti af stærri heild sem þjónaði fagurfræðilegu hlutverki, og
gat jafnvel verið tákn um vald og auðæfi, en síðar hafa þeir öðlast trúarlega
merkingu sem vígðir altarissteinar. Slíkir litríkir altarissteinar sem fengnir
voru frá fjarlægum slóðum hafa að sama skapi verið ákveðið valdatákn og
að öllum líkindum meira metnir en sambærilegir steinar úr innlendum
bergtegundum líkt og grágrýti. Hvaða hlutverki porfýrsteinarnir hafa
gegnt eftir að þeir misstu notagildi sitt sem altarissteinar eftir siðbreytingu
er óljóst en sú staðreynd að þeir hafa varðveist jafn lengi og raun ber vitni í
kirkjum á borð við Hvamm í Norðurárdal og Hruna í Hrunamannahreppi
bendir þó til þess að þeir hafi haldið ákveðnu gildi. Gamlir trúarlegir
gripir, sérstaklega úr fágætum steini, hafa því að öllum líkindum þótt enn
verðmætir sökum aldurs þeirra, efniviðar og fyrrum trúarlegs hlutverks
þótt að notagildi þeirra hefði horfið með breyttum trúarsiðum.
Hér hefur verið fjallað um þá porfýrgripi sem varðveittir eru á Íslandi.
Þeir eru sjö talsins og þar af eru sex úr grænum og einn úr rauðum porfýr.
Má ætla að fjöldi gripanna gæti aukist eftir því sem fornleifarannsóknum
vindur fram, sérstaklega á kirkjustöðum frá miðöldum. Samhengi íslensku
porfýrsteinanna er kirkjulegt og er hér talið að þá gripi, sem f lokkast
undir porfýrplötur (sjá mynd 17), megi túlka sem altarissteina. Hlutverk
ílöngu porfýrgripanna frá Viðey og Reykholti hefur þó verið óljósara en
hér er talið að porfýrsteinninn úr Viðey hafi á hinn bóginn ekki verið
notaður sem altarissteinn heldur hafi verðmæti innf luttra steina úr hörðum
bergtegundum líkt og porfýr ekki endilega einskorðast við þá trúarlegu
merkingu sem var lögð í porfýrgripi, heldur hafi efniseiginleikar gripanna,
þá sérstaklega harka þeirra og lögun í tilfelli porfýrgripsins úr Viðey, geta
gert það að verkum að þeir voru einnig eftirsóknarverðir í öðrum tilgangi,
hvort sem það gæti hafa verið við sléttun á vaxi, sem mortélstautar við
mölun eða til annarra nota.
216 Bracker–Wester 1989, bls. 9.