Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Síða 118
117FERÐASAGA MÓSAÍKFLÍSA – PORFÝRSTEINAR Á ÍSLANDI
sem altarissteinar eða ferðaölturu því að írska fundasafnið hefur eins og áður
segir einnig verið túlkað sem minjagripir pílagríma.73 C.J. Lynn, sem hefur
m.a. rannsakað írsku porfýrsteinana, hefur bent á að f lesta porfýrfundi í
Dublin megi rekja aftur til 11. aldar og telur að hægt sé að tengja þá fundi
við ferðir pílagríma í gegnum borgina, en kenningin virðist einna helst eiga
að útskýra hvernig rómverskir steinar, sem oft var að finna á trúarlegum
miðstöðvum, hafi dreifst til Írlands.74 Lynn dregur þó ekki endilega í efa
að um altarissteina sé að ræða en telur að óháð því hvort porfýrsteinarnir
hafi verið notaðir í ferðaölturu eða verið minjagripir pílagríma þá hafi þeir
sennilega borist til Írlands með pílagrímum eða tengst ferðum þeirra.75
Greining á íslenskum porfýrgripum
Í þessari rannsókn voru kannaðir þeir ellefu steinar á Íslandi sem taldir
hafa verið úr porfýr og þeir greindir nánar til að ganga úr skugga um
að raunverulega sé um porfýrsteina að ræða. Voru þar á meðal nokkrir
gripir sem vafi lék á að væru úr porfýr, þ.e. altarissteinn frá Melakirkju
og þrír ílangir rauðir steingripir úr Viðey og verður hér fjallað nánar um
greiningu þeirra. Einnig var leitast við að kanna ógreinda steina með því
að fara yfir lýsingar á steingripum í gagnagrunninum Sarpi sem gætu fallið
að útlitslegri lýsingu á porfýr, en engir nýir porfýrgripir komu í leitirnar
með þeim hætti. Sólveig Guðmundsdóttir Beck jarðfornleifafræðingur sá
um greiningar á steinunum og verður hér byggt á niðurstöðum hennar um
þá steina sem vafi lék á um að væru úr porfýr. Við greiningu kom í ljós að
fundnir porfýrsteinar á Íslandi eru alls sjö talsins en nánar verður fjallað um
þá að neðan. Eftirfarandi steinar eru þeir sem vafi lék á að væru úr porfýr
en eru samkvæmt greiningunni úr öðrum bergtegundum.
Altarissteinn úr Melakirkju
Árið 1879 færði Helgi Sigurðsson prestur á Melum Forngripasafni Íslands
altarisstein, hurðarhring og krossmark úr Melakirkju í Melasveit.76 Aldur
altarissteinsins, gripanúmer 1720/1879-29, er óþekktur en hann er nefndur
í eignaskrám kirkjunnar frá 17. öld. Steinninn er ferhyrndur, af stærðinni
15,5 x 12,4 x 1,6 cm en brotnað hefur af einu horni hans. Steinninn er
greyptur í ferhyrnda eikarumgjörð sem er 23,6 x 17,5 cm að stærð og
73 Ó Floinn 1997, bls. 264.
74 Lynn 1984, bls. 26.
75 Sama heimild, bls. 27.
76 Matthías Þórðarson 1912, bls. 18.