Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Side 142
141FERÐASAGA MÓSAÍKFLÍSA – PORFÝRSTEINAR Á ÍSLANDI
fundarsamhengi gripanna, þeirra frá Þórarinsstöðum207 og Reykholti,208
sýnir að porfýrgripir voru komnir inn í íslenska efnismenningu þegar
á 11. öld. Hluti porfýrsteinanna virðist þó aldrei hafa farið í jörðu, svo
sem gripirnir frá Hvammi í Norðurárdal og líklega gripirnir frá Hruna í
Hrunamannahreppi og nr. 4098/1895‒32, eða þá aðeins á seinni öldum,
svo sem porfýrsteinninn úr Viðey.209 Þar sem tímasetjanlegt samhengi
hefur verið til staðar fyrir porfýrgripi í nágrannalöndunum hafa þeir
reglulega verið tengdir við notkun á 11.‒12. öld.210 Virðist íslenska
fundarsamhengið því vera frábrugðið varðandi jarðfundna porfýrgripinn
frá Viðey sem er aldursgreindur til 15.‒16. aldar.211 Þó mætti velta því fyrir
sér hvort það sé í raun einstakt eða hvort þær rannsóknir sem gerðar hafa
verið í nágrannalöndunum hafi einblínt um of á eldri minjar. Á Írlandi og
Skotlandi hefur fundasafnið verið aldursgreint frá 9. öld fram á 18. öld212
og er því ekki ósennilegt að porfýrsteinarnir hafi víðar verið í notkun fram
eftir öldum.
Niðurlag
Þegar litið er til ævisögu hluta (e. biographies of things), eins og hún birtist í
kennilegri nálgun Igors Kopytoffs á efnismenningu, er reynt að varpa ljósi
á „ævi“ hlutar á sama hátt og líf einstaklings: Hvaða hlutverki gegnir hlutur
innan ákveðins tímabils og ákveðinnar menningar? Í hvaða tímaskeið er
hægt að skipta „ævi“ hlutar? Hvernig breytist notkun hlutar með aldri og
hvað gerist þegar hlutur missir notagildi sitt? 213
Ævisöguleg aðferð Kopytoffs gerir okkur kleift að kafa dýpra ofan í
notkunarsögu porfýrsteinanna. Vissulega mætti skipta „ævi“ porfýr-
steinanna upp í ákveðin tímabil: Út frá ríkjandi kenningum má ætla að
grænu steinarnir hafi verið unnir á 1.‒5. öld e.Kr. í Grikklandi, og rauði
porfýrsteinninn frá Reykholti í Egyptalandi, og hafi síðan verið f luttir til
innan Rómaveldis.214 Á einhverju stigi málsins hafa þeir svo verið sagaðir
í plötur, þó að þeir gætu hafa haft önnur form þar á undan.215 Þeir hafa
207 Steinunn Kristjánsdóttir 2003, bls. 119‒122.
208 Guðrún Sveinbjarnardóttir 2012, bls. 156.
209 Margrét Hallgrímsdóttir 1988, bls. 50, 55; Margrét Hallgrímsdóttir 1989, bls. 5.
210 Stylegar 2010, bls. 64‒65; Regner 2016, bls. 276; Karlsson 2015, bls. 95.
211 Margrét Hallgrímsdóttir 1989, bls. 5.
212 Lynn 1984, bls. 27.
213 Kopytoff 1986, bls. 66‒67.
214 Tesch 2007, bls. 53‒54; Peacock 1997, bls. 712; Lynn 1984, bls. 19.
215 Lynn 1984, bls. 19.