Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Blaðsíða 206
205RITDÓMUR: LEITIN AÐ KLAUSTRUNUM
‘klaustursins’. Ekkert slíkt samhengi er að finna í texta Adams frá Brimum
sem er vísast heimild höfundar um fundinn.
Annað klaustur segir höfundur hafa verið að Keldum. Eins og í tilviki
‘Bæjarklausturs’ er engin rituð heimild um þessa stofnun. Þorláks saga B
greinir frá því að Jón Loftsson hafi látið reisa ‘kirkju ok klaustrhús fyrir
norðan lœk at Keldum ok ætlaði sjálfr í at ganga, en øngvir urðu menn
til ráðnir’ (Íslenzk fornrit XVI:2, bls. 180). Þorlákur heyrir af þessum
framkvæmdum og að Jón vilji helga klaustrið Jóhannesi skírara. Biskup
dregur í efa að heilagur Jóhannes muni þiggja þessa vígslu í ljósi fyrri
gjörða Jóns. Svo skipast að Jón tekur sótt stuttu eftir komu sína að Keldum.
Líka er ritað að Sæmundur, sonur Jóns, hafi bætt hús og kirkju að Keldum.
Að Sæmundi gengnum hafi synir hans rifið bæði húsin og skipt með sér
föðurarfi. Inntak þessarar sögu er klárlega að Jóni Loftssyni var ekki auðið
lífdaga til að stofna klaustur að Keldum. Jóhannes skírari er sérstaklega
tengdur fyrirgefningu synda leikmanna (eins og höfundur réttilega minnist
á) og því merkir þátturinn að Jóni Loftssyni hafi ekki veist tími til að bæta
fyrir syndir sínar, a.m.k. ekki í þessu lífi. Það að húsin og kirkjan eru rifin
niður er endanleg og táknræn staðfesting á þessum dómi. Jón sá þetta fyrir
sjálfur þegar hann mælti sjúkur, ‘„Þar stendur þú kirkja mín. Þú harmar
mik en ek þik.“ Þóttisk hann þá sjá at óvíst væri um uppreist hennar ef
hann kallaði frá’ (Íslenzk fornrit XVI:2, bls. 181). Höfundur les úr Þorláks
sögu B að ‘klausturhús og kirkja hafi verið reist á staðnum, þó ekki fyrr en í
tíð Sæmundar sonar Jóns’ og getur til að Jón Loftsson hafi einungis stofnað
klaustursellu að Keldum (bls. 305-306). Þessi skýring gengur næsta þvert
á það sem heimildin segir, þ.e. að Jón hafi reist hús fyrir klausturhald sem
aldrei varð af. Höfundur segir að Jón hafi stofnað klaustrið (en samt ekki
reist hús?) rétt eftir dauða Þorláks biskups. Þá er spurning hvernig útskýra
eigi að Þorlákur vissi, samkvæmt Þorláks sögu B, af framkvæmdum Jóns.
Hin heimildin sem höfundur tiltekur fyrir tilvist Keldnaklausturs er
innsigli sem fannst á Keldum á ofanverðri nítjándu öld. SIG:SUEINONIS:
PRI: PAL og á að vera ‘frá lokum 12. aldar’ (ekki er útskýrt hvernig
þessi nákvæma aldursgreining er til komin). Í grein frá 1909 las Matthías
Þórðarson eftirfarandi úr innsiglinu: ‘SIG (illum): SUEIONIS: PRI (oris):
Pal (udensis), þ.e. ‘innsigli Sveins príors Pálssonar’. Í Sögu Íslands II benti
Magnús Stefánsson á annan leshátt ‘‘SIG (illum): SUEIONIS: PR (esbyter):
Pal (udensis), þ.e. ‘innsigli Sveins príors Pálssonar prests’ (Saga Íslands II,
bls. 84). Ekki er minnst á þennan möguleika sem er óheppilegt þegar haft
er í huga hversu augljóslega brýnt er að vega og meta hverja heimild þegar