Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Síða 190
189ELDGJÁRGOS OG LANDNÁMSGJÓSKA
Sigurður Þórarinsson fylgdist vel með þessum rannsóknum og nefnir
þær í grein í Árbók Fornleifafélagsins frá 1981.11 Þar segir hann:
„Smiðshöggið á ákvarðanir á aldri Landbrotshrauns hefur nú verið rekið af
dönskum eðlisfræðingi C.U. Hammer. Hann hefur unnið vísindalegt afrek,
er varðar okkur Íslendinga f lestum fremur, með aðferð til að finna menjar
eldgosa í ískjörnum úr Grænlandsjökli og öðrum gaddjöklum. .... Eitt af
allra fyrstu gosunum sem Hammer fann menjar um í Grænlandsjöklinum,
var gosið í Lakagígum 1783 og sker það sig mjög úr öðrum gosum varðandi
stærð, svo sem vænta mátti. Þar eð Eldgjárhraunið er svipaðrar stærðar og
Skaftáreldahraunið leitaði Hammer í ískjörnum fyrir beiðni undirritaðs
að gosi svipaðrar stærðar og Skaftáreldar, frá öldunum næstu fyrir og
eftir 900, og fann eitt og aðeins eitt svipaðrar stærðar, frá árinu 934. Skv.
þessu má nú telja öruggt, svo vart skakkar meira en einu ári til eða frá, að
Landbrotshraunið og etv. Eldgjárhraunið allt sé frá árinu 934. Athyglisverð
í þessu sambandi eru ummæli séra Jóns Steingrímssonar, að stórhlaup hafi
komið undan Mýrdalsjökli 934.“ (Bls. 34).
Eftir þetta má segja að íslenskir fræðimenn hafi f lestir farið að tengja
Eldgjárgosið við árið 934 eins og sjá má t.d. á Jarðfræðikorti af Mið-
Suðurlandi sem gefið var úr 1982.12 Seinna fundust svo gjóskukorn í ískjarna
frá Grænlandi, sem höfðu svipaða efnasamsetningu og Eldgjárgjóska,
einmitt á þeim stað þar sem Hammer hafði bent á ummerki um stórgos
sambærilegt við Skaftárelda og það styrkti menn enn í trúnni.13 Erlendir
jarðfræðingar héldu þó áfram að vera tvístígandi varðandi ártalið eins og
sjá má af 1. töf lu.
B.M. Vinther, ásamt Sigfúsi J. Jónssyni og f leirum, byggðu upp
samræmt ískjarnatímatal fyrir Grænlandsjökul og birtu niðurstöðuna í
grein árið 2006.14 Til þess notuðu þeir mæliraðir á raf leiðni í ískjörnunum
en sveif lur og toppar í raf leiðninni sýna hvenær stórgos hafa átt sér stað.
Viðmiðunarkjarnarnir sem þeir notuðu voru einkum DYE-3, GRIP
og NGRIP. Þetta tímatalslíkan nefnist GICC05 (Greenland Ice Core
Chronology 2005). Við það hafa menn lengi miðað enda talið mjög
áreiðanlegt. Samkvæmt þessu tímatali telst Eldgjárgosið hafa hafist árið
933.
11 Sigurður Þórarinsson 1981, bls. 34.
12 Haukur Jóhannesson o.fl. 1982.
13 Zielinski o.fl. 1995.
14 Vinther o.fl. 2006.