Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Page 141
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS140
steinum, svo sem þeim frá Hvammi sem er í umgjörð sinni og steinunum
frá Þórarinsstöðum og Hruna. Samhengi þeirra allra er kirkjulegt þar sem
þeir hafa verið afhentir Þjóðminjasafninu úr kirkjum eða hafa fundist á
kirkjustöðum líkt og steinninn frá Þórarinsstöðum.201
Þeir sem um málið hafa fjallað telja að á Norðurlöndunum hafi
porfýrsteinarnir fyrst og fremst verið notaðir í ferðaölturu.202 Ákveðnir
eiginleikar tilheyra ferðaölturum sem gætu myndað grunn að form-
gerðarfræði þeirra, m.a. að vígði altarissteininn var felldur í viðarfjöl
sem var gjarnan ferhyrnd og hafði hólf fyrir helga dóma en stærð og
lögun steinsins virðist hafa verið með ólíku móti.203 Erfitt er að segja
til um það hvort jarðfundinn porfýrgripur hafi eða hafi ekki komið úr
ferðaaltari sem hefur glatað umgjörð sinni. Er fundarsamhengi gripanna
því ítrekað notað til að skera úr um hvort um ferðaaltari hafi verið að
ræða, líkt og var gert í Sigtuna þar sem porfýrsteinarnir fundust ekki í
kirkjulegu samhengi.204 Erfitt er að greina íslensku porfýrsteinana sem
ferðaölturu út frá formgerðarfræði nema þá altarissteininn frá Hvammi.
Hann hefur vissulega form hinna svokölluðu ferðaaltara, er með ferhyrndri
viðarumgjörð með hólfi fyrir helga dóma, en umgjörðin hefur þó
naglaholur sem hafa m.a. verið túlkaðar sem festingar við altarið.205 Þó
að altarissteinninn frá Hvammi gæti hafa verið búinn til sem ferðaaltari
er ekki hægt að segja með vissu að hann hafi ávallt verið notaður á þann
hátt og vel má vera að hann hafi fyrst og fremst verið notaður sem búinn
altarissteinn. Ef fylgt væri því viðmiði Tesch206 að porfýrsteinar hljóti að
vera ferðaölturu ef þeir finnast ekki í kirkjulegu samhengi þá myndi enginn
íslensku steinanna teljast vera ferðaaltari. Þetta er þó ekki einhlít skýring
sem hægt er að nota sem almennt viðmið, þar sem ekki er hægt að gera
ráð fyrir því að ef porfýrgripur finnst utan kirkjulegs samhengis sé um
ferðaaltari að ræða né að ferðaölturu hafi ekki verið geymd í kirkjum. Því
reynist erfitt að álykta um það hvort íslensku porfýrsteinarnir hafi verið
notaðir sem ferðaölturu frekar en lausir eða fastir altarissteinar í kirkju.
Varðandi aldursgreiningu á íslenska fundasafninu þá virðast gripirnir
hafa verið í umferð frá lokum víkingaaldar fram á fyrri hluta 20. aldar. Elsta
201 Steinunn Kristjánsdóttir 2004, bls. 66–68.
202 Ó Floinn 1997, bls. 264.
203 Lynn 1984, bls. 25; Bracker–Wester 1975, bls. 125.
204 Tesch 2007, bls. 61.
205 Sarpur 2018, 10897/1930-307.
206 Tesch 2007, bls. 61.