Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Blaðsíða 166
165UPPRIFJUN UM NÁTTÚRUNAFNAKENNINGU
hægt væri að hrekja með öllu einhverjar af einstökum skýringum Þórhalls,
þá reiknar hann sjálfur ekki með öðru en að einhver minnihluti örnefnanna
eigi aðrar skýringar en hann setur fram. Almenna niðurstaðan stæði þannig
næsta óhögguð.
Hvernig á nú að höndla með örnefnaskýringar Þórhalls ef þær eru hver
um sig aðeins mismunandi sennileg tilgáta? Má þá ekki hafa þær bestu fyrir
satt og horfa framhjá þeim lökustu?
Sú spurning brann á þeim Guðrúnu Kvaran og Sigurði Jónssyni
þegar þau unnu að bók sinni, Nöfn Íslendinga. Þar vildu þau tilfæra sem
f lestar heimildir um notkun hvers nafns og þurftu þá að ákveða hvenær
örnefni dygði sem slík heimild. Fengu þau Svavar Sigmundsson í lið með
sér og rituðu grein þrjú saman þar sem þau leggja mat á valin dæmi um
örnefnaskýringar Þórhalls.35 Þau taka ekki fyrirvaralaust undir neina
skýringuna og nokkrum hafna þau með öllu. Ef líkindamat þeirra væri tjáð
í hundraðshlutum, þá yrðu það mun lægri tölur en hjá Þórhalli sjálfum,
sumar langt undir 50, jafnvel nálægt núlli. Ég kann enga trúverðuga aðferð
til að leggja dóm á það mat. En kjarni málsins er sá að ágreiningurinn
snýst um mat á líkindum. Þau eru örugglega misjöfn en sjaldnast þannig að
skýring sé annaðhvort óvefengjanleg eða útilokuð.
Það fór líka svo að þau Guðrún og Sigurður byggðu lítið eða ekki á
rannsókninni. Þótt skýringum Þórhalls á vissum bæjarnöfnum sé alveg
hafnað í greininni, þá eru þau örnefni a.m.k. ekki nefnd í bókinni sem
heimildir um viðkomandi mannanöfn. Þó vísa þau Guðrún í örnefni á
einstaka stað, eða a.m.k. einum sem ég rakst á. Þar segir um nafnið Brjánn
að það „kemur fyrir í fornbréfi á 15. öld en bæjarnafnið Brjánslækur, sem
er mun eldra, bendir til að það hafi verið notað fyrr.“36 Jú, víst er það
eldra, finnst í handriti frá 14. öld, eins og Þórhallur hafði bent á í pistli
um þetta bæjarnafn.37 En hversu gamalt? Ritháttur þess er á reiki, ótvírætt
Brjánslækur í einu handriti Þorláks sögu helga en ótvírætt Brandslækur í
einu handriti Sturlungu og einu sjálfrar Landnámu. Að Brands-myndin sé
upprunalegri hafði annar rökstutt á undan Þórhalli, enda bærinn kenndur
við læk sem rennur úr Surtarbrandsgili. Ef þetta er eldra nafn sem breyttist í
Brjánslæk, þá sýnir það vissulega að fólk gat hugsað sér Brján sem mannsnafn
(a.m.k. á 14. öld, kannski áður en Þorláks saga var fyrst rituð um 1200).
En vegna hins sögufræga Brjánsbardaga á Írlandi og draumvísunnar um
35 Guðrún Kvaran o.fl. 1986. Einkum er fjallað um niðurstöður sem Þórhallur hafði sett fram 1971.
36 Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson 1991, bls. 167.
37 Þórhallur Vilmundarson 1971, bls. 71.