Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Síða 160
159UPPRIFJUN UM NÁTTÚRUNAFNAKENNINGU
slík nöfn væru þá gefin út frá þekkingu sem ekki blasir við í sjónhending,
enda notaði Þórhallur þá kort í stað ljósmynda til að styðja mál sitt.
En þótt Þórhallur tef ldi fram á minnisstæðan hátt bæði náttúru- og
afstöðuskýringum, þá tók hann þær ekki sjálfkrafa fram yfir aðrar. Dagverðar-
nöfn höfðu t.d. verið skýrð sem afstöðunöfn, þ.e. eyktamörk (líkt og t.d.
Nónhæð eða Miðmundaholt sem sól átti að vera yfir, séð frá ákveðnum bæ,
á vissum tíma dags). Þórhallur stekkur samt ekki á þá skýringu heldur sér
hann að Dagverðar/Dögurðar-nöfnin eru ekki endilega á hólum og hæðum
eða öðru sem auðvelt var að taka mið af, heldur einmitt stöðum á borð við
eyrar og sumir þeirra kunnir matstaðir engjafólks eða gangnamanna. Og
þá líklegt, finnst honum, „að mörg önnur Dögurðar-örnefni séu til komin
á svipaðan hátt sem heiti á stað … þar sem vinnandi fólk var vant að snæða
dögurð …“19 Munurinn á þessari túlkun og skýringu Harðar sögu er sá að
sagan vill leiða örnefni af einum sérstökum atburði, Þórhallur af því algenga,
endurtekna. En af mannlífi, ekki náttúru.
Bollastaðir eru, eins og fyrr segir, eitt af þeim örnefnum sem Þórhallur
taldi of algeng til að vera leidd af sjaldgæfum mannanöfnum. Enda upplagt
náttúrunafn, eða hlýtur ekki glöggt auga víðast hvar að geta greint einhvers
konar „bolla“ í landslaginu? Þórhallur fellur þó ekki í þá freistni heldur
virðist honum „samkvæmt staðháttum … ekki líklegt, að Bollastaðir í Kjós
… dragi nafn af bolla í landslagi.“20 En af hverju þá? Um það fullyrðir
Þórhallur ekki en bendir á sem möguleika að nafnið sé umbreytt úr
*Bolastaðir og þá upphaf lega kennt við húsdýrið, sbr. þekktu nöfnin Bolastaði
og Uxastaði, líka Bollagarða sem kunni að vera umbreytt nafn á sama hátt,
enda nautagarður til í fornmáli. Umbreytt húsdýrsheiti sér Þórhallur líka í
sjálfri Öxará, en örstutt grein hans um það nafn21 sýnir í hnotskurn hvernig
hann nálgast slík viðfangsefni. Frásögn Landnámu um menn Ketilbjarnar
gamla, sem týndu öxi sinni í ánni, gefur Þórhallur lítið fyrir, enda skýrir
hún ekki af hverju samnefndar ár finnast bæði norður í Ljósavatnsskarði og
austur í Skriðdal. Landslagsskýringu hafnar hann líka því að hann finnur
ekki í grennd við árnar þrjár fjöll eða kletta sem líklegt sé að menn hafi
kennt við axir. Hins vegar sé algengt að kenna ár við húsdýr, hafi þá áin
afmarkað haga dýranna. Að Öxará sé á þann hátt kennd við uxa virðist í
fyrstu langsótt, en því til stuðnings getur Þórhallur bent á ýmis örnefni,
íslensk (m.a. Öxnadal) og norsk, og áþekkar nafnbrenglanir síðari alda.
19 Þórhallur Vilmundarson 1991, bls. xxxii.
20 Sama, bls. xxxiv.
21 Þórhallur Vilmundarson 1996b, bls. 139–140.