Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Page 33
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS32
cm á breidd. Kambarnir eru fremur stuttir og mælast heilir hér á landi 7,5
til 15,1 cm að lengd. Þar sem því verður við komið að mæla fjölda tanna
á cm eru grófu tennurnar á bilinu 3‒6 og þær fínu 8‒10 talsins. Tvíraða
koparnegldir kambar koma fram í kjölfar einraða koparnegldra kamba, þó
að tímabil þeirra skarist,107 og teljast hér á landi miðaldagripir.
Við formgerðargreiningu tvíraða samsettra kamba er einkum horft
til lögunar endaplatna en einnig okagerða. Þessir kambar finnast á
Norðurlöndum og Norður‒Englandi frá 12. öld og fram á 16. öld, en eru
algengastir frá um miðri 12. öld til um 1400 og eru jafnan taldar ótvíræðar
miðaldagerðir. Í Noregi var tvíraða kömbum úr rannsóknum í Gamla
bænum í Osló skipað í fjórar formgerðir, D1‒D4 (D=dobbelkam), og þeir
aldursgreindir til 12.‒14. aldar.108 Við fornleifarannsóknir í Þrándheimi
var byggt á formgerð Oslóarkambanna en bætt við f lokkum og eru þeir
f lokkaðir frá D1 til D7, og eru aldursgreindir út frá fundarsamhengi frá
seinni hluta 12. aldar allt þar til um 1600.109 Í Svíþjóð eru tvíraða samsettir
kambar einkum aldursgreindir til tímabilsins um 1200‒1400.110 Um sænska
kamba var búið til gerðfræðiskema og þar eru þessar gerðir kallaðar Typ
4‒8.111 Á norðanverðu Englandi eru þessir kambar einkum taldir vera frá
um 12.‒15. öld og kallast gerð 13 í gerðfræðiskema yfir skoska kamba.112
Á D1/Typ 5 er tvöfaldur bogi á endaplötu (mynd 18). Oki er einn
hvorum megin. Snið ferkantað eða ávalt, oft prófílerað.113 Þessi gerð er talin
elsta gerð tvíraða kamba í borgum og bæjum á Norðurlöndum og finnst í
mannvistarlögum í Osló frá því seint á 12. öld og fram á hina fjórtándu.114
Margir slíkir kambar hafa fundist í Svíþjóð og eru þeir taldir einkum frá
tímabilinu 1150‒1250 en þó eru dæmi um þá úr yngri minjum fram á
14. öld.115 Þrír kambar teljast af gerð D1/Typ 5 á Íslandi. Þar af fundust
tveir, Þjms. 1990‒88‒040, frá Stóru borg, og SVB88‒1196, frá Svalbarði í
Þistilfirði, í mannvistarlögum frá tímabilinu 1150‒1300.116
Á D2/Typ 4 (mynd 19-20) eru beinar enda plötur. Hornin á endaplötunum
geta bæði verið skörp og rúnnuð en jaðar inn er beinn. Oki er einn hvoru
107 Broberg & Hasselmo 1981, bls. 72.
108 Wiberg 1977, bls. 17, 202‒211.
109 Flodin 1989, bls. 124‒125.
110 Blomqvist 1942, bls. 152‒153; Broberg, & Hasselmo 1981, bls. 84; Grieg 1933.
111 Broberg & Hasselmo 1981, bls. 72‒73.
112 Ashby 2010, bls. 6.
113 Broberg og Hasselmo 1981, bls. 77, fig. 53.10; Wiberg 1977, bls. 207, 210 fig. 23.
114 Wiberg 1977, bls. 207.
115 Blomqvist 1942, bls.154.
116 Mjöll Snæsdóttir (ritstj.) Stóraborg; Amorosi 1991, 1992, 1996.