Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Qupperneq 32
31JARÐFUNDNIR KAMBAR Á ÍSLANDI FRÁ LANDNÁMI TIL 1800
að slíkur gripur væri úr málmi að þess var ekki getið en reyndar eru þessar
heimildir fáorðar. Erlendis þekkjast íburðarmiklir kambar úr fílabeini sem
taldir eru kirkjukambar. Eru þeir taldir upprunnir í Austurlöndum nær,
ef til vill frá Býzansríkinu.103 Þeir kambar sem taldir eru kirkjukambar
erlendis hafa margir fundist í kirkjulegu samhengi, t.d. í kirkjugörðum. Hið
sama má heimfæra upp á þrjá, jafnvel fjóra, af íslensku koparkömbunum:
Skálholtskambur er fundinn í kirkjugarði, Reykholtskamburinn fannst
innan kirkju og Þingeyrakambur á klausturstað. Á Barðsnesi er heimild
um að hafi verið bænhús.104 Þegar grein Magnúsar um þetta efni birtist í
Kirkjuritinu var ekki búið að gefa út niðurstöður uppgraftar í Skálholti og
óvíst að hann hafi þekkt til kambanna frá Miðnesi og Barðsnesi.
Koparkambarnir fimm eru einstakir gripir. Þeir hafa verið miklu
sjaldgæfari en kambar úr beini og tré og efnið verðmætara, einstakara og
endingarbetra. Sérstaða þessara gripa er undirstrikuð með því að slíkir
kambar virðast ekki hafa fundist í nágrannalöndum okkar eða öllu líklegra
er að þeir hafi ekki varðveist, e.t.v. vegna þess að málmurinn hefur verið
bræddur upp. Fjórir af fimm kömbum finnast í kirkjulegu samhengi
og verður að telja þá dæmi um hvernig ríkidæmi og völd kirkjunnar
endurspeglast í fágætum smíðisgripum sem jafnframt hafi haft sérstaka
trúarlega merkingu og hlutverk við guðsþjónustur.
Tvíraða, samsettir, koparnegldir kambar úr beini, u.þ.b. 12.‒15. öld
Á Íslandi eru 33 dæmi um koparneglda tvíraða kamba úr beini. Af þeim
bera 29 eintök öll þau einkenni sem þarf til gerðfræðilegrar greiningar.
Ekki er hægt að greina efni naglanna á fjórum, en þar sem þeir finnast
innan þessa tímabils þá verða þeir taldir með hér.105
Kambarnir eru úr beini eða horni, tvíraða, með fínni og grófri
tannaröð106 og festir saman með koparnöglum. Þeir hafa oftast einn oka á
hvorri hlið en stundum tvo og eru þá til dæmi um að í milliplötunum, á
milli okanna, séu kringlótt skrautgöt. Okarnir eru oft mótaðir (prófíleraðir)
með djúpum skorum langsum, t.d. við jaðra og/eða eftir miðju. Þversnið
okanna er yfirleitt f latt‒ávalt eða kantað. Koparnaglarnir eru hluti af
skrautinu og er neglingin misþétt, bæði þekkist einföld röð koparnagla og
naglapör. Okarnir á tvíraða kömbunum eru fremur mjóir, rétt um 0,6‒1
103 Roesdahl og Wilson (ritstj.) 1992, bls. 386‒387.
104 Eyjólfur Jónsson 1922, bls. 406; Guðný Zoëga, Guðrún Kristinsdóttir og Mjöll Snæsdóttir 1993, bls.
73, 77.
105 SKU11‒1013, Þjms. 1990‒88‒31, SVB88‒417, VSF12‒31‒838.
106 Utan eins kambs sem er talinn frá Grænlandi, Þjms. 1207 (mynd 24).