Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Blaðsíða 20
19JARÐFUNDNIR KAMBAR Á ÍSLANDI FRÁ LANDNÁMI TIL 1800
önnur. Að auki virðast allir kambar sem fundist hafa í öruggu samhengi
í fornleifarannsóknum á víkingaaldarminjum vera járnnegldir (þar sem
varðveist hafa naglar í kömbum eða ryð við göt). Þeir eru frá 9. öld og fram
á fyrri hluta hinnar elleftu.
II. Kambar frá miðöldum, 11.‒15. öld
Einraða, samsettir kambar með koparnöglum, u.þ.b. 11.‒13. öld
Undir lok víkingaaldar verða breytingar á kömbum. Áfram eru þeir úr
horni/beini, einraða og samsettir en þróast í að verða stærri og lengri.
Augljósasta breytingin er þó sú að naglarnir sem halda kambinum saman
eru nú úr koparblöndu.47 Koparnegldir kambar hafa ekki fundist í elstu
minjum á Íslandi og koma fram hér á landi snemma á miðöldum. Kambarnir
eru einkar fjölbreyttir að formi og gerð á því tímabili sem um ræðir, frá um
miðri 11. öld fram til um 1300. Elstu kambagerðirnar eru í sömu hefð og
yngstu kambarnir frá víkingaöld og í raun framhald þeirrar formgerðar:48
Hátt kúpt bak og breiðir f latir‒ávalir okar ristir skrautverki einkenna þessa
gerðir. Þegar líður á tímabilið verða kambarnir stílhreinni, skrautristur á
okum hverfa, okarnir mjókka, sumar gerðir hafa djúpar skorur langsum
eftir okunum til skrauts – þeir eru strikaðir ‒ og á yngstu kambagerðunum
eru okarnir óskreyttir og eina skreytið koparnaglarnir. Heilir koparnegldir
kambar hér á landi eru frá 10,5 til 26,2 cm að lengd og hæð er 2 til 6,7 cm.
Fjöldi tanna á hvern sentimetra eru á bilinu 3‒9. Elstu miðaldakambarnir
eru sumir gríðarstórir og eru stærstu kambarnir sem fundist hafa hérlendis
þeirra á meðal. Á Íslandi eru um 39 kambar, og brot, sem hafa til að
bera nógu mörg gerðfræðileg einkenni til að eiga heima hér. Þó eru þeir
nokkuð f leiri sem fá hér sess út frá fundarsamhengi og fundaraðstæðum en
varðveisla þeirra er þannig að ekki yrði úr ráðið ef um lausafundi væri að
ræða. Samtals eru þetta því um 49 eintök.
Við formgerðargreiningu þessara kamba er einkum horft til efnis
naglanna, bakforms og okagerðar. Í Skandinavíu eru til kambar með
koparnöglum frá 10. öld og í haugfé Birkagrafanna sést að slíkir kambar
komast í tísku er líður á 10. öld því að þar eru f leiri B‒gerðar kambar
koparnegldir en járnnegldir.49 Koparnegling verður svo allsráðandi í
47 Hér á eftir verður talað um koparneglda kamba þó að naglarnir séu úr málmblöndu. Í heimildum er
til jafns talað um koparnagla, eirnagla og bronsnagla.
48 Sbr. Øye 2005, bls. 399.
49 Ambrosiani 1981, bls. 72; Ashby 2015, bls. 266.