Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Side 58
57FORNLEIFARANNSÓKN Á 19. ALDAR HVALVEIÐISTÖÐVUM Á VESTFJÖRÐUM
leir- og glermunir voru fjarlægðir til nánari greiningar en annars voru gripir
f lokkaðir á staðnum, þ.e. leir, gler, járn o.s.frv. og í þeim tilfellum þar sem
hægt var að greina hlutverk gripanna var því bætt við f lokkunina. Í öðru
lagi voru minjar bæði á landi og í sjó skráðar. Við minjakönnun á stöðum
sem hafa tengingu við hafið, svo sem á verslunar stöðum eða verstöðvum,
er sjaldan kannað hvaða minjar gætu leynst á hafsbotni. Neðansjávarminjar
eru iðulega ósýnilegar af landi séð, en eru engu að síður mikilvægur
hluti minjasvæða.6 Af þeim sökum var ákveðið að kanna með aðferðum
fornleifafræðinnar 150 x 150 m svæði á hafsbotninum fyrir framan hverja
hvalveiðistöð og skrá þær minjar sem þar leyndust. Svæðin voru fyrst mæld
með tvígeislamæli sem dreginn var á eftir báti. Tvígeislamælirinn sendir frá
sér hljóðbylgjur sem endurkastast af hafsbotninum og dregur hann 40 metra.
Með þessu fæst nákvæm mynd af því sem er á hafsbotninum. Síðan var kafað
niður og sett út hnitakerfi og voru gripir mældir inn samkvæmt þessu.
Samhliða fornleifaskráningunni var rætt við bændur sem búa í nágrenni
við hvalveiðistöðvarnar til að af la frekari upplýsinga um þær og þá
sérstaklega sögu stöðvanna eftir að hvalveiðum lauk. Að auki var rætt við
aðra íbúa á svæðinu, ferðaþjónustuaðila og sveitarstjórnir í þeim tilgangi að
fá skilning á upplifun þessara aðila á minjastöðunum, hvaða skoðun þeir
hefðu á þeim og hvort þeir teldu að hægt væri að nýta hvalveiðistöðvar
Norðmanna á einhvern hátt, t.d. í ferðaþjónustu.
Hvalveiðar við Ísland
Þrátt fyrir fengsæl hvalamið við strendur Íslands stunduðu Íslendingar ekki
hvalveiðar í atvinnuskyni fyrr en á 20. öld. Ritaðar heimildir benda til
að frá upphafi landnáms hafi Íslendingar að mestu nýtt hvalreka sem var
talinn mikil búbót en ritaðar heimildir benda að auki til þess að landsmenn
hafi stundað hvalveiðar þegar tækifæri gáfust.7 Fornleifarannsóknir hafa
varpað ljósi á að Íslendingar kunnu vel þá aðferð að vinna lýsi úr hvalspiki
og litlir bræðsluofnar hafa fundist bæði við verslunarstaði í Gautavík í
Berufirði8 og bæjarstæði Bæjar í Öræfum..9 Þó er alveg eins líklegt að þessir
ofnar hafi verið notaðir til að vinna hákarla- og sellýsi, sem var ein af
útf lutningsvörum Íslendinga á miðöldum.10
6 Parker 2001; sjá einnig Westerdahl 2011.
7 Grágás 1992; Jónsbók 2004; sjá einnig Magnús Már Lárusson 1962, bls. 170.
8 Guðmundur Ólafsson 1979, bls. 15.
9 Bjarni F. Einarsson 2008, bls. 72–89.
10 Lúðvík Kristjánsson 1983, bls. 319–321; Helgi Þorláksson 2017, bls. 103.