Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Page 15
VERA KnÚTSDóTTIR
20
á klassískar draugasögur þar sem draugurinn táknar endurkomu þess sem er
óuppgert og niðurbælt, en í skilningi freuds um hið ókennilega, sýnir sagan
hvernig bæling og þöggun skapa reimleika. Þegar líður á söguna kemur í ljós að
það er sami draugur, eða öllu heldur sömu draugar, sem ásækja sögupersónur
verksins, það er tríóið á Hesteyri og sálfræðinginn á Ísafirði. Svo virðist sem
draugarnir snúi aftur til að finna lausn óútkljáðra mála og leita réttlætis. Í því
skyni má draga fram tengsl á milli söguþráðar Ég man þig og samfélagsástands-
ins á ritunartíma verksins, en draugasagan skírskotar í þann flótta, bælingu og
þöggun sem einkennir hrunsamfélagið; hvernig fólk leitast við að flýja raunveruleg
vandamál efnahagshrunsins og breiða yfir þau, í stað þess að horfast í augu við
vandann og takast á við hann.
Eitt helsta einkenni hrollvekjunnar er flókin, ýkt og yfirgengileg atburðarás
en hún er sannarlega til staðar í Ég man þig; þar sem saman koma ýkt og hrottaleg
morð, og draugar sem ásækja sögupersónur á ólíkum sögulegum tímum. Yfir-
gengilega sögufléttu verksins má tengja við hefð hinnar gotnesku greinar, helstu
bókmenntagreinar drauga og reimleika, sem liggur nútímahrollvekjunni til
grundvallar, og sem Richard Davenport-Hines segir að inniberi: „fjögur hundr-
uð ár af öfgum, hryllingi, illsku og eyðileggingu.“43 Hann útskýrir enn fremur:
því miður flokka gotharar yfirvegun og ró ekki á meðal helstu fagur-
fræðilegra afreka; né heldur milljónir neytenda listræns goths í sam-
tímanum. Þeir kunna að meta öfgar sem eru vandlega settar á svið, þar
sem reynsluheimur óskapnaðarins, hins skelfilega (e. the dreadful other) er
gerður að ritúali sem lesendur upplifa óbeint.44
Að þessu leyti gerir ýktur söguþráður verksins, sem og stef eins og „grimmilegt
illmenni, undirgefið fórnarlamb og hræðilegur staður, einangraður og fjarri al-
faraleið“, Ég man þig að gotneskri sögu.45 Davenport-Hines skilgreinir gotneska
fagurfræði sem andóf gegn skynsemishyggju og upplýsingu átjándu aldarinnar,
og sem tilfinningalegt, fagurfræðilegt og heimspekilegt andsvar við stigveldi og
regluverki samfélagsins á þeim tíma.46 Gotneskt myndmál leitast við að grafa
43 Þetta kemur fram strax í titli verksins: Richard Davenport-Hines, Gothic: Four Hundred
Years of Excess, Horror, Evil and Ruin, new York: north Point Press, 1998.
44 „Goths unfortunately seldom rank sanity or calm among the highest aesthetic achieve-
ments; nor do gothic’s millions of contemporary artistic consumers. They like carefully
staged extremism, and vicarious or strictly ritualised experiences of the dreadful Other.“
Richard Davenport-Hines, Gothic, bls. 8. Þýðing mín.
45 Sama heimild, bls. 2.
46 Sama heimild, bls. 2.