Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Page 33
SuNNA DÍS JeNSDóTTIR
38
grundvelli að innan sálarlífsins megi finna dulvitund sem geymi hið ómeðvitaða
í huga mannsins. Dulvitaðar upplýsingar geta færst yfir í vitundina en fyrst þurfa
þær að hafa viðkomu á svæði hins forvitaða. Þar getur hins vegar leynst mótstaða
frá duldum öflum sjálfsins sem þvinga hið sálræna ferli til baka. Þetta kallast
bæling sem er í raun sjúklegt sálarferli sem enn er hlaðið orku þegar það færist
aftur yfir í dulvitundina. Það inniheldur þó engar minningar því bælingin á sér
stað utan vitundar sjálfsins. Þegar ferlið raskast á slíkan hátt getur það valdið
geðrænum truflunum einstaklingsins sem erfitt er að nálgast eða uppræta.4 Út-
skýring Brynju á sér því ákveðinn samhljóm í bælingarferlinu að því leyti að hið
yfirnáttúrulega verður táknrænt fyrir hið bælda innra með einstaklingnum og
áminning um tilveru þess kemur sálarlífinu úr jafnvægi, sem veldur því að „þá
bara brotn[ar] eitthvað“ (130).
Með þessar kenningar til hliðsjónar mætti segja að hin yfirvofandi ógn í
skáldsögu Jökuls sé táknræn fyrir allt það sem fullorðna fólk söguheimsins hefur
bælt niður en börnunum tekst að draga fram í vitundina. Varnarhættir sjálfsins,
sem ábyrgir eru fyrir bælingunni, veita mótstöðu gagnvart vissum dulvituðum
sálarferlum í þeim tilgangi að hleypa ekki að hvötum sem fara gegn eigin sið-
gæði.5 Alla jafna hefur þetta því gagnleg áhrif en getur einnig haft neikvæðar
afleiðingar og komið í veg fyrir að einstaklingurinn geti meðtekið óbærilega vitn-
eskju. Af slíku er nóg að taka í umhverfi Brynju og vina hennar og ekki bara af
yfirskilvitlegum toga. Hún býr í blokkinni Húmdölum en þar viðgengst ýmiss
konar misferli sem enginn virðist vilja viðurkenna eða bæta úr. Börnin eru þau
sem helst líða fyrir ástandið en það eru einnig þau sem enda á að þurfa að berjast
upp á líf og dauða við yfirnáttúruleg öfl. Hliðstæðu má sjá í bardaga þeirra fyrir
öryggi allra íbúa og baráttu þeirra fyrir betra lífi og framtíð, sem meðal annars
felst í því að fletta ofan af öllu því sem amar að.
Hér er fjallað um skáldsöguna Börnin í Húmdölum og gotnesk skáldskaparein-
kenni hennar. Sögusviðið er sett í samhengi við reimleikahúsið í bókmenntum og
kvikmyndum og vísað er til samfélagslegrar umræðu er varðar stéttaskiptingu,
búsetu og misjöfn tækifæri barna. Við greininguna er notast við kenningar sál-
greiningar ásamt því sem verkið er lesið í samhengi við almenna umfjöllun um
ofbeldi gegn börnum á útgáfutíma bókarinnar. Kenningar um hið gotneska barn
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1996, bls. 310–326. Hér er vísað í 19. fyrir-
lestur Freud frá árinu 1917 sem ber yfirskriftina „Mótstaða og bæling“. Þó skal það
tekið fram að Freud fjallaði víða um bælingu og mótstöðu sjálfsins í tengslum við geðræn
veikindi, dulvitund og fleira.
4 Sama rit, bls. 318–321.
5 Sama rit, bls. 320–321.