Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Page 53
SuNNA DÍS JeNSDóTTIR
58
Ísaks, sögu fjölskyldu sinnar. Samband hennar við einkadótturina Aðalheiði var
ekki heilbrigt og jókst vandi þeirra enn frekar þegar eiginmaður Gunnlaugar
lést. Hún fyrirleit ósjálfstæði dóttur sinnar, sem aldrei flutti að heiman, og furð-
aði sig á því þegar hún varð ólétt fyrir slysni. Faðir Ísaks var horfinn á brott
skömmu eftir að drengurinn kom undir og spennustigið á milli mæðgnanna varð
enn rafmagnaðra eftir fæðingu hans.
Fljótlega fóru Aðalheiður og Gunnlaug að kenna Ísaki um ástandið á heim-
ilinu og varð sú síðarnefnda viss um að hann byggi yfir sérstökum fjarskynjunar-
hæfileikum. Hún sannfærði dóttur sína um að sonurinn yrði tekinn af henni ef
hún leitaði aðstoðar vegna hans sem varð til þess að þær einangruðu sig innan
veggja heimilisins og frá samskiptum við aðra. Amman agaði Ísak með líkam-
legum refsingum en sagði að móðir hans hefði sýnt honum linkind sem henni
hefndist fyrir síðar meir. Aðalheiður tók að óttast son sinn og kenndi honum
um endurteknar martraðir sínar og svefnleysi. Gunnlaug varð ekki sannfærð um
ábyrgð drengsins fyrr en nóttina sem óhamingjan sótti þau heim. Hún hafði
vaknað með óþægilega tilfinningu og ákveðið að líta inn til dóttur sinnar. Þar lá
Aðalheiður sem liðin í rúminu en lauk loks upp augum sem reyndust vera „kol-
svört og dauð“ (274). Við þetta varð gömlu konunni svo brugðið að hún missti
kerti úr höndum sér sem kveikti mikinn eld og kostaði hana heimilið, sjónina og
dótturina (271–274).
Í þessu samhengi er áhugavert að líta til hugmynda fræðimannsins Steven
Bruhm sem telur að gotneskar bókmenntir gjarnan afhjúpi gjarnan ákveðna
þversögn í nútímahugmyndum um barnið. Annars vegar sé litið á það sem full-
mótaðan og „tilbúinn“ einstakling en hins vegar sem ófullkomna veru sem við
fullnægjandi aðstæður getur mótast á réttan hátt. 67 Amma Ísaks lætur slíka þver-
sögn stjórna afstöðunni til drengsins en fljótlega eftir fæðingu hans er hún búin
að ákveða að hann búi yfir sérstöðu sem geri hann hættulegan öðrum. Hún telur
samt að uppeldisaðferðir geti breytt þróun mála og grípur þar af leiðandi fram
fyrir hendurnar á dóttur sinni, móður Ísaks. Amman beitir því barnabarnið
harðræði, einangrar hann frá öðrum og útilokar fjölskylduna frá samfélaginu.
Bruhm segir enn fremur að í gotneskum frásögnum nútímans séu þemu sál-
greiningar gjarnan sett á svið og óttinn gagnvart því bælda fái útrás. Bælingin
á rætur sínar að rekja til barnæskunnar þar sem það þarf að siðmennta barnið
frá upphafi og banna því og skipa uns óæskilegar langanir og þrár hafa verið
bældar. Þar af leiðandi verður til spenna gagnvart barninu, sem bæði er tákn-
67 Sue Walsh, „Gothic Children“, bls. 183. Hér er vísað í Walsh þar sem frumheimild
Bruhm hefur ekki verið útgefin en hugleiðingar hans um millibilsástand barnæskunnar
fá að fylgja með þar sem þær varpa mikilvægu ljósi á greininguna.