Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Page 67
MARTEINN KNARAN ÓMARSSON
72
mark fórnarlamba í tvö og bætti við þeim möguleika að gerendur gætu verið
fleiri en einn í hverju tilviki.14 Bandaríski menningar- og félagsfræðingurinn Julie
B. Wiest hefur hins vegar bent á að viðmið Alríkislögreglunnar séu í raun þrengri
þar sem í leiðarvísi stofnunarinnar sé einnig tekið fram að raðmorðingjar myrði
helst ókunnuga.15 Það er ágætt viðmið í sjálfu sér en síður en svo algild regla.
Rannsóknir á kvenkyns raðmorðingjum hafa til dæmis leitt í ljós að konur myrða
oft þau sem þær þekkja svo sem hjúkrunarfræðingar sem myrða sjúklinga sína.
Eins drepa þær gjarnan í hagsmunaskyni líkt og hinar svokölluðu „svörtu ekkjur“
sem myrða maka sína eða ættingja hvað eftir annað til að komast yfir fjármuni
eða eignir. Um tíma átti fólk reyndar bágt með að trúa því að konur gætu framið
glæpi af þessu tagi meðal annars sökum hugmynda um kvenleika og móður-
lega ást. Nú til dags er hins vegar talið að hlutfall kvenna meðal raðmorðingja
í heiminum sé um 15%. Það má því vissulega segja að konur hafi sannað sig á
þessum vettvangi eins og bókin Just as Deadly (2023) vitnar um en í henni fjallar
bandaríski sálfræðingurinn Marrisa A. Harrison um kvenkyns raðmorðingja.16
Uppfærð viðmið alríkislögreglunnar skapa víðan ramma og votta um breytta
sýn og afstöðu gagnvart raðmorðum á tuttugustu og fyrstu öld. Enda er ljóst að
raðmorðingjar eru breiður og fjölbreyttur hópur karla, kvenna og annarra sem
erfitt er að móta nákvæm kerfi eða flokka yfir. Lengi gáfu menn sér þó vissar for-
sendur og í fyrrnefndu riti, Killer Data eftir Enzo Yaksic, eru fjölmörg atriði listuð
upp sem talin voru algild á tímabili og veltast að auki sífellt um í bókmenntum
og kvikmyndum með þeim afleiðingum að hugmyndir fólks um afbrotin og ger-
endurna eiga til með að verða takmarkaðar. Getur slíkt beinlínis verið hættu-
legt ef upp kemur atvik þar sem gerandi passar ekki vel inn í staðalímyndina. Í
þessu samhengi er vert að nefna nokkur atriði sem hafa verið talin einkennandi
fyrir raðmorðingja. Fyrir það fyrsta má minnast hinnar rótgrónu hugmyndar að
allir raðmorðingjar séu hvítir karlmenn milli tvítugs og fertugs. Svo er ekki og
14 Skilgreiningin hljómar á þessa leið: „The unlawful killing of two or more victims by the
same offender(s) in separate events“, R. J. Morton og M. A. Hilts, ritstjórar, Serial murder.
Multi-disciplinary perspectives for investigators, Behavioral Analysis Unit, National Center
for the Analysis of Violent Crime, 2008, sótt 26. janúar 2023 af https://www.ojp.gov/
ncjrs/virtual-library/abstracts/serial-murder-multi-disciplinary-perspectives-investiga-
tors.
15 Julie B. Wiest, Creating Cultural Monsters. Serial Murder in America, Boca Raton, Flórída:
CRC Press, 2011, bls. 32–33.
16 Anthony Bolin og Robert Hale, „The Female Serial Killer“, Contemporary Perspectives on
Serial Murder, ritstjórar Ronald M. Holmes og Stephen T. Holmes, Thousand Oaks, Kali-
forníu: Sage, 1998, bls. 33–58, hér bls 34–36; Marissa A. Harrison, Just as Deadly. The
Psychology of Female Serial Killers, London/New York: Cambridge University Press, 2023.