Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Qupperneq 95
STEINDóR J. ERLINGSSON
100
mannsins sem fékk „einn þumlung af blýi í / brjótkassann“.4 Til að byrja með
voru áhrif þess einungis bundin við ákveðinn óskilgreindan stað í heilanum, en
eftir því sem árunum fleytti fram virðast fleiri staðir í líkamanum hafa orðið fyrir
áhrifum þess. Eftir að ólyfjan illskunnar varð varanlegur hluti tilveru minnar
hefur það svæði heilans sem stjórnar lífsviljanum vart borið sitt barr. Afleiðingin
er skelfileg, enda hef ég hugleitt sjálfsvíg með einum eða öðrum hætti nánast
öll fullorðinsárin. Dauðahvötin hryllilega hefur haft margvísleg neikvæð áhrif á
líf mitt, til að mynda skemmt getu mína smátt og smátt til þess að eiga í mann-
legum samskiptum.
Þegar þungur baggi dauðahvatarinnar er hafður í huga þarf ekki að koma
á óvart að ég gluggi endrum og sinnum í Víti Dantes Alighieri (1265–1321).5 Í
þessum stórbrotna ljóðabálki lýsir Dante ferð sinni niður níu bauga vítis og
varpar um leið ljósi á stjórnmálaástandið í fæðingarborg sinni Flórens. Þrátt fyrir
myndrænar lýsingar skáldsins á umhverfi vítis telur rússneska (sovéska) ljóðskáldið
Osip Mandelstam (1891–1938) rangt að horfa á það sótsvarta sem efnislegan stað.
Þessu heldur hann fram í magnaðri ritgerð um hugmyndaheim Ítalans þar sem
segir að „víti innihaldi ekkert, og sé án rúmtaks, líkt og farsótt, smitandi sjúk-
dómur“.6 Sama á við um sjálfsvígshuganirnar sem herja á mig. Þær eru án rýmdar
en líkt og í bók Dantes eru þær stundum uppspretta harmrænnar atburðarásar
þegar rýmislausu hugsanirnar raungerast í lífshættulegri atburðarás í daglegu lífi.
Ýmsar leiðir hafa verið reyndar til þess að draga úr áhrifum dauðahvatarinn-
ar á líf mitt. Lengstum réð geðlæknisfræðin alfarið för, með litlum sem engum
árangri.7 Læknarnir einblíndu því miður bara á eitrið sem streymir um líkamann
en ekki ástæður þess að það barst inn í hann. Fyrir nokkrum árum varð loks
breyting á þegar ég komst í samband við sálfræðing, sem sérhæfir sig í því að
skilja innkomuleiðir eiturs illskunnar og hvernig hægt sé að draga úr áhrifum
þess. Með aðstoð sálfræðingsins hefur mér tekist að lyfta Grettistaki og má færa
rök fyrir því að hún hafi bjargað lífi mínu.
4 Marina Tsvetaeva, „Poem of the End“, Bride of Ice, Elaine Feinstein þýddi, Manchester:
Carcanet Press, 2009, bls. 94–117, einkum bls. 102.
5 Dante Alighieri, Víti, Einar Thoroddsen þýddi og Jón Thoroddsen ritaði formála,
Reykjavík: Guðrún útgáfufélag, 2018.
6 Osip Mandelstam, „Conversation about Dante“, Clarence Brown og Robert Huges þýddu,
The Selected Poems of Osip Mandelstam, Clarence Brown og W. S. Merwin þýddu, New York:
New York Review of Books, 1973, bls. 103–153, einkum bls. 142. Á fjórða áratugnum gekk
Mandelstam alltaf með vasabrotsútgáfu Gleðileiksins guðdómlega á sér; sjá Nadezhda Man-
delstam, Hope Against Hope, Max Hayward þýddi, London: Harwill Press, 1999, bls. 228.
7 Steindór J. Erlingsson, „Hugleiðing um áföll og sjálfsvígshugsanir“, Tímarit Máls og menningar
3/2015, bls. 4–17. Sjá einnig Steindór J. Erlingsson, „Glímir geðlæknisfræðin við hugmynda-
fræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni“, Tímarit félagsráðgjafa 5: 1/2011, bls. 5–14.