Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Blaðsíða 105
STEINDóR J. ERLINGSSON
110
við dauðann til þess að vinna bug á skelfilegu þunglyndi og sjálfsvígshugsunum.
Þetta er ekki nokkurri manneskju bjóðandi.28
Hugurinn er nú yfirfullur af hryllilegum minningum. Fyrirferð þeirra er slík
að nálægðin við eiginkonuna og Snúlla drukknar í helvítinu sem hefur heltekið
mig. Þótt ég sjái í rökkrinu glitta í myndirnar af börnunum halda öldur vonleysis
áfram að skella á mér. Ein þeirra dregur fram minningar um volkið í voginum
og í skamma stund prísa ég mig sælan yfir að vera ekki orðinn hluti bola og
greina kolsvarta og kræklótta skógarins í sjöunda baug Vítis en innan trjánna þar
veina vesalingar sem féllu fyrir eigin hendi.29 Önnur alda þvingar ofbeldisfullu
martraðirnar fram í vitundina og flytur mig síðan niður í fremsta hluta níunda
baugs sköpunarverks Dantes. Þar sé ég manneskjur sem svikið hafa ættmenni sín
frosnar upp að bringu og fyllist skelfingu þegar línurnar er lýsa örlögum þeirra
koma fram í vitundina:
Ofan íss [þær] húktu fésum hnigðum
og munnar báru vitni vítisfrera
en augnatillit sárum hjartahryggðum. 30
Brimskaflarnir linna loks látum þegar ég niðurbrotinn legg bók Grays frá mér á
náttborðið. Þá rek ég augun í Út í vitann eftir Virginiu Woolf, tek bókina upp af
borðinu og opna af handahófi. Á síðunni sem blasir við mér spyr frú Ramsey:
„Hvernig gæti einhver Drottinn hafa skapað þennan heim“? Rökhugsunin hafði
fyrir löngu opnað augu hennar fyrir því „að það er engin skynsemi, regla, rétt-
læti: heldur þjáningar, dauði, hinir fátæku“.31
Orð frúarinnar verða þess valdandi að Plath leitar aftur á hugann. Ástæða
þess er sú að það er fleira en geðveiki og hræðslan við raflækningar sem sam-
einar okkur því við trúum bæði á tilvist helvítis. Skoðun Plaths, sem endurómar
viðhorf mitt, birtist í samræðum hliðarsjálfs hennar, Estherar Greenwood, við
prestinn á spítalanum. Þar segir hún guðsmanninum að „ég tryði á helvíti og
að sumt fólk, á borð við mig sjálfa, yrði að búa í helvíti áður en það dæi, sem
uppbót fyrir að sleppa við það eftir dauðann, þar sem það tryði ekki á líf eftir
dauðann …“.32 Þessar hugsanir fljúga um vitundina rétt áður en svefninn tekur
loks völdin. Samhliða þeim læðast um hugann myndir af Plath og Woolf, sem
28 Síðar komst ég að orsök köfnunartilfinningarinnar: Svefnlyfinu var dælt alltof hratt inn í
æðina.
29 Dante Alighieri, Víti, bls 189–199.
30 Sama heimild, bls. 455.
31 Virginia Woolf, Út í vitann, Herdís Hreiðarsdóttir þýddi, Reykjavík: Ugla, 2014, bls. 100.
32 Sylvia Plath, Glerhjálmurinn, bls. 254.