Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Blaðsíða 114
Ármann Jakobsson
Illskan í íslenskum miðaldabókmenntum
Fæstar íslenskar miðaldabókmenntir lýsa beinlínis skoðunum eða athugunum
höfundanna heldur eru á ferðinni frásagnir þar sem fortíðin er til umfjöllunar
en auðvitað slæðast með alls konar höfundaviðhorf og almenn umfjöllun sem
eflaust átti sinn þátt í rituninni. Sagnaritarar miðalda voru meðvitaðir um að
sagan hefði almennt gildi, atburðir ættu sér hliðstæður eða þeir endurtækju sig.
Skýrt kemur þetta fram hjá hinum norska Þóri sagnaritara sem í Noregssögu
sinni skýtur inn útúrdúrum (digressiones) sem eru erlend dæmi frá ýmsum stöðum
og stundum hliðstæð því sem gerðist í Noregi á þeim öldum sem eru til um-
fjöllunar í sagnariti hans.1 Enginn vafi er heldur á því að söguhlýðendum var
ætlað að hafa skoðanir á hinu sögulega efni, alveg eins og skoðunum almenn-
ings í samtímanum er iðulega lýst („þótti það skaði mikill“). Eins segja höfundar
stundum milliliðalaust skoðun sína á mönnum og málefnum og ekki þykir óeðli-
legt að bæta við lyndiseinkennum söguhetja þegar útliti þeirra hefur verið lýst,
þar á meðal hörðum dómum um sumar sögupersónur. Ekki er þó almenn regla
að fólk sé kynnt í íslenskum sagnaritum. Sumir birtast einfaldlega í sögunni og
áheyrendum er þá látið eftir að fella sína dóma.
Rógtungan Mörður Valgarðsson varð svo illræmdur og hataður af íslensku
þjóðinni að nafn hans var varla notað öldum saman eftir að Njáls saga var rituð
en honum er lýst svo í sögunni: „Þá er hann var fullkominn at aldri var hann
illa til frænda sinna ok einna verst til Gunnars; hann var slœgr maðr í skap-
ferðum ok illgjarn í ráðum“.2 Seinna kemur fram að Mörður öfundar Gunnar
frænda sinn og hegðun hans í sögunni tekur síðan af öll tvímæli um illgirni hans.
Hann neitar að taka þátt í bardaga nálægt heimili sínu, leggur til að Gunnar á
1 Sjá meðal annars Sverre Bagge, „Theodoricus Monachus – Clerical Historiography in
Twelfth- century Norway,“ Scandinavian Journal of History 14:1989, bls. 113–133.
2 Brennu-Njáls saga, Íslenzk fornrit 12, útgáfa, Einar Ólafur Sveinsson, Reykjavík, 1954, bls. 70.
Ritið
1. tbl. 23. árg. 2023 (119-124)
© 2022 Ritið, tímarit Hug vísinda stofnunar og
höfundur greinarinnar
Útgefandi:
Hugvísinda stofnun Háskóla Íslands,
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík
Birtist á vefnum http://www.ritid.hi.is.
Tengiliður: ritið@hi.is
DOI: 10.33112/ritid.23.1.6
Birt samkvæmt skilmálum
Creative Commons BY (4.0).