Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Page 160
„HAnDAn VIð lÍFIð BÍðuR EkkERT, EkkERT“
165
Til þess að spurning, fyrirbæri eða þess vegna ljóð verði hér talið trúarlegt
verður einnig gengið út frá að í því megi finna tilvísun til annarrar víddar en
hinnar veraldlegu, efnislegu eða „þessa-heimslegu“ (e. immanent), það er víddar
sem kalla má handanlæga (e. transcendent). En flest trúarbrögð fela í sér skírskotun
til slíkrar víddar. Það er á hinn bóginn hvorki nauðsynlegt að eðli og inntak
slíkrar víddar sé útlistað né sjálf tilvist hennar viðurkennd. Svar við trúarlegri
spurningu getur vitanlega verið neikvætt. Svörin geta því spannað allan skalann
frá játningu til efa og jafnvel fullkominnar afneitunar.27
Sem dæmi um ljóð eftir Hannes Pétursson sem endurspeglar vel þá vídd sem
hér um ræðir má benda á lokaljóð „Heimkynna við sjó“ frá 1976:28
Ei hálfa leið
nær hugsun mín til þín.
Ég skynja þig
en ég skil þig ekki.
Afneitun mín og hik
er ígrundun um þig.
Mín innsta hugsun
er á heimferð til þín
— og þó innan þín
sem ert allar strendur.
[…]. (358)
Nærtækt er að líta svo á að hér sé guðdómurinn ávarpaður en í hugmyndum
um hann kemur hin handanlæga vídd hvað sterkast fram.29 Þá virðist hugmynd
ljóðsins um guðdóminn mótuð af algyðistrú (e. pantheism) en samkvæmt henni
27 Hér vaknar spurning um hvort telja beri viðhorf efasemda- og jafnvel vantrúarfólks
trúarleg sem og hverjum beri úrskurðarvald í því efni, fræðafólki eða þeim sem í hlut
eiga. Sjá Sólveig Anna Bóasdóttir, „Trú“, bls. 286. Í þessari grein er litið svo á að þegar
um fræðilega umfjöllun sé að ræða beri fræðafólkinu að njóta frelsis til að setja fram eigin
afmarkanir. Annars er eðlilegt að sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga sé virtur.
28 Í bókinni bera ljóðin ekki sérstök heiti en eru númeruð.
29 Í mun yngra ljóði, „Fyrirburði“, er dulin vídd tilverunnar einnig viðurkennd þegar spurt
er í lokin: „En ráðgátulaus heimur, hvers virði væri hann?“ (Haustaugu, bls. 17). Þá virðist
slík vídd vera forsenda sem gengið er út frá í þriðja ljóðinu í bálkinum „Á þessum kyrru
dægrum“. Þar játar ljóðmælandi að hafa í „mannhroka“ ekki þakkað „gjafir náðar“ án
þess að huga að verðskuldan sinni né heldur fullgoldið huga og hjarta það sem þeim bar.
(Hautstaugu, bls. 46, 47).