Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Page 177
HJAlTI HuGASOn
182
Mörgum, hættir til að tengja saman efa og tómhyggju. Sú athugun sem hér
er gerð á ljóðheimi Hannesar Péturssonar sýnir að slík staðhæfing er fjarri lagi
hvað hann áhrærir. Þvert á móti einkennist kveðskapur Hannesar af jákvæðri
lífsafstöðu sem felur í sér þá fullvissu að líf mannsins í þessum heimi sé tilgangs-
ríkt í sjálfu sér öfugt við það sem kennt er í ýmsum trúarbrögðum og hefur ein-
kennt kristnina á löngum tímabilum. Því kemur ekki á óvart að í ljóðunum gætir
tíðum kvíðaleysis og djúpstæðrar öryggiskenndar. Sem dæmi um slíka lífsafstöðu
má nefna ljóðið „Áleiðis“.76 Í fyrra erindi þess er brugðið upp mynd af ríðandi
manni á langferð um heiðalönd á haustkvöldi. Í síðara erindinu segir:
Engu þarf að kvíða.
Nú kular úr opnum skörðum
og lækurinn hljóðnar
í lautunum mér að baki.
Engu þarf að kvíða
klárinn fetar sinn veg
stefnir inn í nóttina
með stjörnu í enni. (207)
Erindið býður vissulega upp á ólíka túlkunarmöguleika og ekki er augljóst að
ljóðið vísi út fyrir þá mynd sem dregin er upp af ferðamanninum í fyrra erindinu
og kenndina sem miðlað er í því síðara. Sé ljóðið aftur á móti lesið sem um-
þenking um líf mannsins á jörðinni og óhjákvæmileg endalok þess, en það virðist
nærtækasti lesháttur þess, miðlar það trúarlegum boðskap og öryggiskennd. Þá
fær líka hvíti depillinn í enni þess stjörnótta nýja merkingu, verður endurskin
annarrar stjörnu sem vísaði rétta leið forðum. Því þarf engu að kvíða þótt kuli
úr skörðum og nótt fari að.
þá látinn í ljós efi um ágæti ráðgátulauss heims (Haustaugu, bls. 16–17). Efi H.P. virðist
því nokkuð tvíátta. Í minningabók sinni víkur H. P. víða að trúarmótun sinni og barna-
trú en nefnir einnig atvik úr æsku sem kann að hafa markað upphaf vegferðar í átt að
aukinni afstæðishyggju og efa. Hannes Pétursson, Jarðlag, bls. 36, 48–49, 147, 174–176,
177, 204, 207, 239, 252–254, 278–279. Sjá og Gísli Sigurðsson, „Hugsunin um fall-
valtleikann“, bls. 7, 8. Það kemur ekki á óvart að þegar H.P. nefnir guð berum orðum í
„Stund einskis, stund alls, VII“ (1962, Stund og staðir) er það „þagnaður guð“. (141) Svipað
mótíf kemur fram í miklu yngra ljóði, „Bænarstaður“ þar sem ljóðmælandi kveðst trekk
í trekk hafa leitað svara við „Þagnarmúrinn“ sem hafi jafnharðan hrundið frá sér „[…]
hverri játningu / hverri bón / hverju minnsta orði.“ (Haustaugu, 55) Sjá og Njörður P.
njarðvík, „Ferðin heim“, bls. xxxv.
76 Ort 1965 birtist í Innlönd.