Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Side 182
Finnur Dellsén
Fyrir hverja eru fræðin?
1. Inngangur
Fyrir hverja eru vísindi og fræði?1 Við fyrstu sýn gæti virst sem að þessari spurn-
ingu sé auðsvarað. Fræðin eru fyrir okkur öll – ekki bara fyrir suma, heldur fyrir
alla. Í þessu felst að það eigi allir rétt á að njóta ávaxtanna af fræðastörfum,
hvort sem það eru til dæmis nýjar og betri kenningar, ný gögn eða upplýsingar,
eða tækninýjungar sem fræðin geta af sér. Raunar virðist mega ganga lengra og
segja að fræðin séu ekki bara fyrir okkur öll, heldur séu þau líka í vissum skilningi
jafn mikið fyrir okkur öll. Við erum ekki bara öll í sama báti, heldur erum við öll
á sama farrými – eða að minnsta kosti ættum við að vera það.
Vandinn við að svara titilspurningu þessarar greinar með þessum hætti og
láta þar við sitja er að eins og sakir standa hef ég gert lítið annað en að setja
fram slagorð: „Fræðin eru (jafn mikið) fyrir okkur öll!“ Gott og vel – eflaust getum við
flest fallist á almennt orðaða fullyrðingu af þessu tagi.2 En hvað felst eiginlega í
þessum orðum – eða, réttara sagt, hvaða merkingu ættum við að gefa þeim? Við
þessari spurningu er ekkert augljóst svar, því eins og útskýrt verður í þessari grein
veltur það á ýmsum heimspekilegum álitamálum, svo sem um gildi þekkingar,
eðli vísinda og fræða og verkaskiptingu innan samfélaga. Engu að síður mun ég
1 Í víðum skilningi orðsins vísindi nær það yfir öll þau fræðastörf sem eiga sér stað innan
akademískra stofnana, frá hugvísindum til félagsvísinda, læknisvísinda og raunvísinda
(sbr. þýska orðið Wissenschaft). Í daglegu tali er merking orðsins vísindi þó oft öllu þrengri,
til dæmis þannig að það vísi aðeins til raunvísinda og tengdra greina (sbr. enska orðið
science). Til að fyrirbyggja allan misskilning kýs ég þess vegna að nota orðið fræði til að vísa
til vísinda í sem víðustum skilningi í þessari grein.
2 Til marks um að þessi hugsun sé útbreidd má nefna að á vef Stjórnarráðs Íslands um
opin vísindi er vísað í þá „grunnhugmynd að rannsóknir fjármagnaðar af almannafé
séu almannagæði“ („Opin vísindi“, Stjórnarráð Íslands, sótt 16. maí 2023 af https://www.
stjornarradid.is/verkefni/visindi-nyskopun-og-rannsoknir/opin-visindi/).
Ritið
1. tbl. 23. árg. 2023 (187-204)
Ritrýnd grein
© 2022 Ritið, tímarit Hug vísinda stofnunar og
höfundur greinarinnar
Útgefandi:
Hugvísinda stofnun Háskóla Íslands,
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík
Birtist á vefnum http://www.ritid.hi.is.
Tengiliður: ritið@hi.is
DOI: 10.33112/ritid.23.1.10
Birt samkvæmt skilmálum
Creative Commons BY (4.0).