Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Page 190
FYRIR HVERjA ERu FRÆðIn?
195
þá að það sé alltaf jafn mikils virði að vita eitt eins og að vita eitthvað annað.
Kannski er það til dæmis einskis virði fyrir mig að vita nákvæmlega hversu mörg
sandkorn eru innan lóðarmarka nauthólsvíkur akkúrat núna, eða hver sé nýjasti
kærasti raunveruleikastjörnunnar Kim Kardashian. Sum þekking virðist einfald-
lega vera einskis virði, að minnsta kosti fyrir mig.
Þetta samræmist fyllilega þekkingarlegri jafnaðarstefnu eins og ég hef skil-
greint hana því hún kveður ekki á um að um sérhverja staðreynd gildi að það sé
einhvers virði að vita hana, heldur kveður hún á um að um sérhvern einstakling gildi
að til séu staðreyndir sem það sé einhvers virði fyrir viðkomandi að vita. Það má
kannski orða þetta þannig að þekkingarleg jafnaðarstefna kveði á um að ólíkir
einstaklingar séu jafnir hvað varðar það hvort tiltekin þekking hafi gildi fyrir þá,
en ekki að ólíkar staðreyndir séu jafnar hvað varðar það hvort það hafi gildi að
við höfum þekkingu á þeim. Það eru ekki staðreyndirnar sem eru jafnar að því
leyti hvort það sé einhvers virði að vita þær, heldur eru það við sem erum jöfn að
því leyti hvort þekking okkar á þeim sé einhvers virði.
5. Áhugi og afstætt gildi þekkingar
Annar mögulegur misskilningur á þekkingarlegri jafnaðarstefnu er að hún feli í
sér að það séu einhverjar tilteknar staðreyndir sem allir einstaklingar eigi að öðlast
þekkingu á – að sumt sé þess virði fyrir alla að vita og annað alls ekki. Ef þetta
leiddi af þekkingarlegri jafnaðarstefnu fæli hún í sér að það ættu allir að vita sömu
hlutina og læra það sama – sem þýddi þá að það yrði enginn fjölbreytileiki í því
hvað ólíkir einstaklingar vita. Við yrðum öll eins konar afrit hvert af öðru hvað
þekkingu okkar varðar og ekkert af því sem aðrir segðu okkur myndi koma okkur
á óvart, því við myndum nú þegar vita allt það sem aðrir hefðu að segja.
En sem betur fer felur þekkingarleg jafnaðarstefna ekki í sér að við eigum
öll að vita það sama – að við eigum öll að hafa sömu þekkinguna. Þekkingarleg
jafnaðarstefna kveður á um að sérhver einstaklingur sé þannig að það að við-
komandi hafi vissa þekkingu sé einhvers virði, en ekki að viss þekking sé þannig
að það sé einhvers virði að sérhver einstaklingur hafi hana. Þær staðreyndir sem
það er einhvers virði fyrir tiltekinn einstakling að vita samkvæmt þekkingarlegri
jafnaðarstefnu geta því verið mismunandi frá einum einstaklingi til annars, og
það þarf ekki að vera til neitt tiltekið safn staðreynda sem það er einhvers virði
að allir viti.
Þetta eru góðar fréttir fyrir þekkingarlega jafnaðarstefnu því það hvort það
sé einhvers virði fyrir einhvern að vita eitthvað virðist meðal annars ráðast af
því hvort viðkomandi hafi áhuga á því að vita það – eða kannski af því hvort