Víðförli - 01.11.1954, Síða 75
SKÖPUNARSAGA OG SKÖPUNARTRÚ
73
annan miklu eldri trúmann, höfund 139. sálmsins í Biblí-
unni. Honum er líka ljóst, hvernig hann hefur orðið til í
móðurlífi. En hann játar eigi að síður fyrir Guði sínum: Þú
hefur myndað mig, ofið mig í móðurlífi, augu þín sáu mig
er ég var enn ómyndað efni, undursamleg eru verk þín.
Hvorugur þessara höfunda er að leysa vísindalega þraut
eða varpa fram fræðilegri tilgátu. Þeir eru báðir að játa
trú, tjá Guði sínum þakkir, vegsama hann. A bak við allan
þann samleik orsaka og afleiðinga, sem vér menn getum
rakið, á bak við hin margvíslegu atvik á æviferlinum, vissu
þeir vera sterka hulda hönd, sem hafði þræðina alla á valdi
sínu, frá upphafi og úr fram. Áherzlan hjá báðum er á gjöf-
um Guðs og vökulli umsjá hans. Vissan um þetta er þeirra
trú. Þeir vita þetta á annan hátt en þeir kunna skil á almenn-
um fróðleik og þekkingarlegum staðreyndum. Af vitneskju
um þess konar hluti eru þeir ósnortnir, hún varðar ekki af-
stöðu þeirra til lífsins, ekki nema að litlu leyti, hún leysir
ekki neinn stóran vanda, sem að höndum ber. En trú þeirra
er vissa, sem þeir eru höndlaðir af, mótar þá gagngert, innri
sannfæring, sem þeir byggja líf sitt á. Hún stýrir huga þeirra
í öllum aðstæðum, veitir þeim öryggi, lífsmið, fótfestu, sem
þeir vita að ekki haggast, þótt allar bækur færust, öll þekk-
ing reyndist blekking, já, þótt himinn og jörð liði undir lok.
Sköpunarsagan í 1. Mós. er um þetta grundvallaratriði á
sömu bylgjulengd. Hún er trúarleg túlkun á leyndardómi
tilverunnar út frá þeirri frumvitund, að góður Guð hafi
gefið manninum þann heim, sem hann lifir í, það líf og þau
lífsgæði, sem hann nýtur, þess vegna sé og maðurinn ábyrg-
ur fyrir Guði.
Þetta er sú þungamiðja þessarar margræddu sögu, sem
sker úr um trúarlegt gildi hennar. En þetta meginatriði vill