Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1988, Page 8
12
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Grímsár milli óss og ármóta við Tunguá. Þetta eru Kaldá, nálægt
ósnum, og síðan Lambá, og lækirnir Kleppagil og Húsagil. Kaldá er
vatnsmest og hefur væntanlega þurft að stífla hana líka en það hefði
varla verið unnt nenra veita vatni hennar eitthvert annað og veit ég ekki
til að neinn hafi bent á ummerki um slíkt. Þá mælir einnig gegn þessari
hugmynd, og kannski miklu fremur, að lítið veiðist af laxi á kaflanum
frá ármótum við Tunguá og að Jötnabrúarfossi.17 Farvegur árinnar er
sagður vera sléttur og hyljalítill fyrir neðan ármótin við Kaldá.18
Til hvers var stíflað ef ekki til að veiða lax? Athugandi er hvort ekki
hafi mátt nota ástemmuna til að veiða silung. Björn Blöndal nefnir
„garðinn mikla“ í norðurálnum og telur að hann hafi verið notaður til
silungsveiða að fornu og hefur líklega rétt fyrir sér, rannsóknir fiski-
fræðinga sýna að á haustin gengur mikið af bleikju úr Reyðarvatni til
hrygningar í Grímsá.il) Hér í ósnum og Óstjörn, lygnunni neðan
hólmans, hafa menn löngum stundað silungsveiði. Garðurinn hlýtur að
hafa verið gerður til fiskveiða og er varla vafamál að menn hafa ætlað
sér að veiða með honum silung en ekki lax.
V
Það vekur athygli að garðleifarnar í norðurálnum ná ekki yfir hann
allan, alveg að hólmanum. Etv. má gera ráð fyrir að áin hafi rutt burt
steinum í leysingum en ekki eru sjáanlegir neðar með hólmanum neinir
stakir steinar sem kynnu að vera úr garðinum. Fyrir neðan hinar sýni-
legu garðleifar eru hins vegar mjög stórir steinar og er ótrúlegt að þeir
hafi nokkurn tíma verið í garðinum.
Eins og nú er háttað í ósnum, virðist eðlilegast að hugsa sér að veiði-
tæki hafi verið sett í norðurálinn á milli garðs og hólma og þannig hefur
Björn Blöndal líklega hugsað. Um tilganginn með garðinum í ósnum
ritar Björn:
17. Björn J. Blöndal, tilv. rit, bls. 76. Freysteinn Sigurðsson frá Reykjum ritar: „Mcr
þykir af og frá að ósinn hafi verið stíflaður til að ná fiski í hyljurn og pyttum. Lax
gengur fár í Grímsá ofan Tunguár." (Úr bréfi til mín dags. 11. janúar 1988). Björk
Ingimundardóttir, Ásgeirssonar, segir líka að hér sé enginn lax að kalla og að ekki sé
veitt fyrir ofan brúna sem er við ármótin hjá Tunguá.
18. Freysteinn Sigurðsson, sama bréf.
19. Sigurður Már Einarsson á skrifstofu Veiðimálastofnunar í Borgarnesi í samtali við
mig.