Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1988, Síða 39
INNGANGUR
43
eyjunum þar hina skrítnu kofa þar sem einkennilegir menn bjuggu,
papar. Og einhver snjall náungi segir: „Þetta eru bara eins og papa-
kofar. Þessi eyja mætti heita Papey“.
Ég rek þetta ekki lengra. En margt fór gegnum liuga minn á leiðinni
til lands og ég einsetti mér að nú skyldi ég beina nýrri athygli að hinum
fornu frumbyggjum landsins og sögunum um þá. Hægt var að nálgast
þá eftir ýmsum leiðum, en ein var bersýnilega að gera fornleifarann-
sóknir þar sem hugsast gæti að þeir hefðu hafst við, einkum þá í Papey,
sem á að hafa nafn eftir þeim. Alla rannsókn á pöpum á íslandi mundi
fljótlega reka í strand, ef ekki væri á reiðum höndum svar við þeirri
spurningu, hvort nokkuð væri að finna í Papcy, sem hnekkti sögunni
um þá eða staðfesti hana. Það var nauðsynlegt að gera fornleifarann-
sóknir í Papey, jafnnauðsynlegt hvort heldur sem árangur þeirra yrði á
einhvern hátt jákvæður eða algjörlega neikvæður. Svonefndur nei-
kvæður árangur mundi vera á sinn hátt jákvæður eigi að síður. Óhjá-
kvæmilegt verk hefði verið unnið. Ég hugsaði mér að gera það eins
fljótt og unnt væri og bjóst reyndar ekki við að það yrði ýkja mikið
verk.
En svo tóku annirnar við. Ég hclt í marga þræði og reyndar fleiri en
með góðu móti kæmust fyrir í greipum mínum. Það dróst að ég færi
út í Papey. Ég komst ekki til þess fyrr en 1967 og var þá komið fram
á haust. Með mér fóru Halldór J. Jónsson safnvörður og Valgeir G. Vil-
hjálmsson kennari og hreppstjóri á Djúpavogi. Við komum til eyjar-
innar að morgni hins 9. september og vorum þar til 13. september. Það
var allt of stuttur tími. Við skoðuðum staðhætti eyjarinnar allrækilega,
rannsökuðum svonefndar Papatættur eins nákvæmlega og við töldum
þörf á og reyndar fleiri staði sem fljótlegt var að afgreiða. En veður var
heldur óhagstætt og við gátum ekki gert eins mikið og við vildum. Við
krukkuðum þó bæði í svonefndar Goðatættur og rúst undir Hellis-
bjargi, og nægði það aðeins til að sannfærast um, að báðir staðirnir
væru mjög rannsóknar virði og jafnframt að til þess þyrfti miklu lengri
tíma en við höfðum til umráða.
Þriðja förin var svo farin 1969, og voru sömu menn í ferð með mér.
Við komum til Papeyjar að kvöldi hins 24. júlí og vorum í eynni til
kvölds hinn 4. ágúst. En veðrið var okkur ekki eftirlátt og ekki vannst
okkur tími til annars meira en að ljúka við rannsókn Goðatætta, það er
rústa sem það nafn hafa borið, en áður en lyki sáum við að aðrar tóftir
voru þar rétt hjá, sem létu miklu minna á sér bera en voru þó jafnvel
enn forvitnilegri. Fórum við svo úr eynni, að þær tóftir voru næstum
enn órannsakaðar, og ekkert gátum við heldur átt við rústina undir