Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1988, Page 29
RÁÐI SÁ ER KANN
33
Nú mætti láta sér detta í hug hvort þessi rúnabrengl væri vísbending
um, hvernig lesa bæri úr því sem hins vegar væri ritað, og ætti þá dul-
málið að vera fengið með því að rita ýmist stafinn næsta á undan eða
þarnæsta á eftir þeim sem rita ætti. Reyndi ég slík stafavíxl við rúnirnar
á hinni hlið keflisins, en fékk ekki skiljanleg orð að heldur.
Stefán Karlsson, við Stofnun Árna Magnússonar, hefur bent mér á að
í bréfum Magnúsar Ólafssonar, prests í Laufási, til Ole Worms eru
sýndir nokkrir dulmálslyklar.9 Þessa lykla reyndi ég líka á ristunni frá
Stóruborg, en ekki bar það árangur heldur. Það er þó greinilegt á
þessum bréfaskriftum að lærður maður á 17. öld gat þekkt til rúna og
dulmálsskriftar ýmiss konar.
Hugsast getur að sá, er rúnirnar risti, hafi ekki ætlað sér annað en æfa
sig, eða skorið þær svosem af rælni. Þekktar eru ýmsar rúnaristur, sem
að öllum líkum eru einmitt æfing eða fikt. Til dæmis má nefna rúna-
ristu eina frá Lundi í Svíþjóð, þar sem segir „bein er þetta, bein er
þetta“, að sjálfsögðu er hún rist á bein. 10 Þessi áletrun er sama eðlis og
orðið „blý“ á blýstílnum úr Stóruborgarkirkjugarði sem áður er getið.
Einnig er algengt að finna áletranir þar sem sama rúnin er endurtekin
margsinnis og má þá oft telja sennilegast að það sé gert í æfingarskyni.
Þó er rúnaristan frá Stóruborg svo vendilega og vel skorin að ólíklegt
er annað en höfundur hennar hafi kunnað allnokkuð fyrir sér og verið
alskrifandi á rúnir. Það er eins líklegt að ég hafi bara ekki hitt á rétta
dulmálslykilinn.
Hugsast getur að stafirnir séu skornir til minnis t.d. um upphafsstaf
orðs eða línu í einhverjum texta, t.d. bæn eða kvæði. Stefán Karlsson
liefur bent mér á að stundum séu vísur í handritum styttar á þann hátt
að upphafsstafir orða séu látnir nægja. Slík aðferð við að skrifa gagnast
auðvitað ekki öðrum en þeim er kann textann fyrir. Ef ristan frá Stóru-
borg er gerð í slíkum tilgangi eru harla litlar líkur á að hægt verði að
detta ofan á réttan texta. Ef ristan er hins vegar skrifuð á einhvers konar
dulmáli, er seint vonlaust að einhver detti ofan á rétta skýringu og finni
lykilinn.
Því verður að enda þessa grein á þeim orðum, sem stundum eru
endir áletrana á rúnastcinum erlendis: ráði sá er kann!
9. Ole Worm's Conespondence with Icelanders, ed. Jakob Benediktsson. Bibliotheca Arna-
magnæana, Vol. VII. Kaupmannahöfn 1948, bls 221.
10. Erik Moltke: Runerne i Danmark og deres oprindelse, Kaupmannahöfn 1976, bls. 372.