Uppeldi og menntun - 01.01.1997, Page 23
RANNVEIG A. JÓHANNSDÓTTIR
því. Kennari stjórnaði því sem fram fór og aðallega var stuðst við kennsluefnið,
Markviss málörvun í leik og starfi. Aðaláhersla var lögð á ýmsa hljóðræna eiginleika
málsins ásamt merkingu og málfræði. Þá sögðu börnin frá á skipulegan hátt og
lýstu atburðum og hlutum.
Lestur og ritun voru þeir þættir móðurmálsins sem voru mest þjálfaðir. Lestur
og lestrarkennsla var ráðandi afl í móðurmálskennslu og var byggt á samtengjandi
lestrarkennsluaðferð í báðum skólum. Lestur og skrift fóru saman þegar barnið
skrifaði bókstafinn sem kenndur var hverju sinni og þegar það skrifaði orð og
setningar sem voru í beinum tengslum við lestrarkennsluna. Barnið var hvatt til
þess að æfa ritun frá eigin brjósti í sögugerðarbók.
Meginmarkmið þjálfunar móðurmáls í grunnskólunum var að barnið lærði að
lesa. Útfærsla kennslunnar var allfjölbreytt þrátt fyrir að aðstæður væru nær ein-
göngu bundnar við skólastofuna þar sem börnin voru alltaf í stórum hópi. Kenn-
arinn átti ekki hægt með að kenna bekknum í heild og auk þess veita sérhverju
barni athygli. Þetta var samt reynt eftir bestu getu.
Móðurmál - uppeldishlutverk og ábyrgð í leikskóla
Fjallað verður um skilning leikskólakennara á uppeldishlutverki sínu og ábyrgð
hvað móðurmál varðar.
Uppeldishlutverk
Hjá starfsfólki leikskólanna birtist skilningur á uppeldishlutverki meðal annars í
viðhorfi þess til barnsins og aðstæðna þess til að efla sjálfsvitund sína og sjálfstæði.
Litið var á leikskólann sem fyrsta skólastig barnanna og síðasta veturinn var sú
hugsun æfð á einn eða annan hátt að þau væru að fara út í lífið eins og það var
orðað. Dæmi um það var, að þau kynnu skil á helstu upplýsingum um sig sjálf og
nánustu fjölskyldu, að þau kynnu að fylgja fyrirmælum, að þau vönduðu sig í
vinnu sinni, að þau fullynnu verkefni sín og að þau gætu sett sig í spor annarra og
tekið tillit til þeirra.
Grunnskólinn er næsta stig sem tekur við þessum börnum. Þannig að við reynum
að búa þau að einhverju leyti undir það. (Leikskólakennari 2)
Fram kom að leikskólinn hefði sérstöku hlutverki að gegna í þjóðfélaginu nú orðið.
Hann væri orðinn fastur liður í menningu okkar sem hefði áhrif á þá menntun sem
er í boði fyrir leikskólakennara. Hún skilaði sér með þeim hætti að nú orðið væri
faglært starfsfólk almennt meðvitað um uppeldishlutverk sitt.
Þú ert meðvitaðri í dag. Við erum fleiri með börnin. Þú hefur meiri tíma til að
hugsa hvað þú ert að gera. (Leikskólakennari 2)
Starfsfólki leikskólanna fannst uppeldishlutverki sínu svipa til hlutverks foreldra.
Það þyrfti líkt og þeir að veita börnunum hlýju, umönnun, mat, gæslu og kennslu.
Inntak starfsins hafi að þessu leyti ekki breyst í gegnum árin, þó að það væri miklu
flóknara en áður var.
Það skiptir mjög miklu máli með hvaða markmiði þú kemur að vinna. (Leikskóla-
stjóri 1)
21